140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt það sem ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag. Ríkisstjórnin er að missa af gullnu tækifæri sem þetta ákvæði í lögum um Stjórnarráðið gefur henni. Þetta kemur reyndar inn á alröngum tíma. Það er mjög slæmt að fá þetta inn núna, þetta er eiginlega versti tímapunkturinn vegna þess að þetta á að taka gildi í haust, svo byrjar skólunin og breytingarnar og allt það og þetta verður varla farið í gang þegar verður kosið næsta vor. Þetta er eiginlega eins slæm tímasetning og hægt er.

Burt séð frá því hefði ríkisstjórnin getað komið með skipurit sitt og sagt: Svona ætlum við að hafa þetta, auðlindaráðuneytið er hérna, hvalveiðarnar heyra þar undir — sem sagt bannaðar — og virkjanir heyra líka þar undir, Landsvirkjun heyrir undir auðlindaráðuneytið — sem sagt allar virkjanir bannaðar. Ef það er stefnan þá gera menn það. Ef ríkisstjórnarflokkarnir eru búnir að samþykkja það er stefnan ákveðin og þá vita það allir. En núna er þetta haft opið og daginn eftir að þessi þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt byrja menn að rífast um það hvar Hafrannsóknastofnun eigi að vera. Á hún að vera undir auðlindaráðuneytinu eða undir atvinnuvegaráðuneytinu? Hvar á Landsvirkjun að vera? Á hún að vera undir fjármálaráðuneytinu því að það fer með hlutabréfið? Á hún að vera undir atvinnuvegaráðuneytinu því að starfsemi hennar er hluti af atvinnuvegi þjóðarinnar eða á hún að vera undir auðlindaráðuneytinu því að Landsvirkjun fer með allar stærstu auðlindir landsins?