140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:00]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að þingmenn verði fullvissaðir um að þessi umræða muni standa langt fram í nóttina þar til mælendaskrá verður tæmd, ef það gerist þá í nótt. Þrátt fyrir að mér hafi fundist umræðan vera heldur að dýpka í kvöld frá því sem verið hefur, held ég að talsvert mikið sé órætt. Það er þó ekki búið að halda nema 57 ræður um þetta mál og ræða um það í 31 klukkustund, fara 40 sinnum yfir fundarstjórn varðandi það og taka 225 andsvör eða svo og svör við þeim. Það sýnir auðvitað að enn er mikið eftir órætt í málinu og við eigum ekki að veigra okkur við því að fara inn í nóttina, eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, og ég hvet forseta til að fullvissa þingmenn um að það verði gert.