140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aftur upp vegna þess að ég hef augljóslega ekki talað nógu skýrt áðan. Ég bað virðulegan forseta í mestu vinsemd um að láta okkur vita hvað þingfundur muni standa lengi. Ég held að ekki þurfi að rökstyðja það neitt frekar. Eins og forseti hefur skilmerkilega greint frá munu menn halda áætlun varðandi nefndafundi í fyrramálið. Það er enn ein ástæðan fyrir því að það væri afskaplega skynsamlegt að upplýsa þingheim um hvað þingfundur eigi að standa lengi.

Við erum búin að taka ágætissnerru núna og það er alveg rétt hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, ég tek nú ekki oft undir með þeim hv. þingmanni, að við eigum eftir að ræða þetta mál mun lengur. En það er ekkert sem mælir með því að ræða það fram á nótt og í raun lítur út fyrir að stjórnarmeirihlutinn vilji ekki að (Forseti hringir.) fólk fái að heyra þessa umræðu, menn vilji einungis að ræða það á nóttunni.