140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ein mínúta er stuttur tími og ég gat ekki rætt það áðan sem ég vildi bæta við um fundarstjórn forseta, en forseti lýsti því yfir að þar sem hér væru margir á mælendaskrá og mikið eftir væri sjálfsagt að halda áfram að tala í þessu máli. Eins og ég lýsti var ég á fundi með Evrópuþingmönnum áðan og mér á hvora hönd sátu þingmaður frá Svíþjóð og þingmaður frá Portúgal. Þegar ég sagði þeim að það væri þingfundur í kvöld þurfti ég að segja það þrisvar, af því að þau sögðu: Það er aldrei. Og hin portúgalska sem sat mér á vinstri hönd, þegar ég sagði henni að fundur hefði verið í gærkvöldi og fram á nótt og yrði aftur í kvöld og aftur fram á nótt, hristi hún bara höfuðið og sagði: Hvers lags vinnubrögð eru þetta? [Frammíköll í þingsal.] Og ég tek undir það.

Hvaða vinnubrögð eru það, ef margir eru á mælendaskrá, að ræða eigi málið um kvöld og nætur? Er ekki skynsamlegra að setja dagskrá þingsins þannig upp að hægt sé (Forseti hringir.) að ræða það á eðlilegum tíma, þetta sé fjölskylduvingjarnlegur vinnustaður og (Forseti hringir.) líklegt sé að ná megi saman um mál? Er það líklegt ef ræða á málið fram í nóttina af því að (Forseti hringir.) listinn er svo langur? Hvers lags vitleysa er þetta?