140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. forseta, í fullri vinsemd, hvort mögulegt sé að fá upplýsingar um hversu lengi þessi þingfundur á að standa. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. forseti meðtaki fyrirmælin sem hv. þm. Björn Valur Gíslason kom með leynt og ljóst inn í umræðuna, mótþróalaust, vegna þess að við vitum að það er forseti sem stýrir fundi.

Það er gaman að því þegar hv. þingmenn koma með útreikninga sína og við getum alveg skoðað málið frá öðrum hliðum. Hér hefur mikið verið talað um málþóf. Ég hef haldið eina 20 mínútna ræðu í þessu máli, talaði ekkert í fyrri umræðu. Meðallengd þingræðu í þessari umræðu er 12,8 mínútur. Það er ekki löng ræða, (Forseti hringir.) a.m.k. ekki miðað við gömlu góðu dagana þegar málþófið var upp á sitt besta (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) og lengsta skráða ræðan var tíu klukkustundir og sjö mínútur (Forseti hringir.) og fimm og hálf klukkustund í samfellu. (Forseti hringir.) Þá erum við að tala um málþóf.