140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér forgangsmál ríkisstjórnarinnar en ég hvet alla til að skoða dagskrá þingsins og sjá málin, lesa yfir þau og meta hvort þetta mál sé mikilvægasta málið, meta hvort það sé skynsamlegt og rétt að setja allt annað aukreitis.

Af hverju segi það, virðulegi forseti? Það var nákvæmlega það sem gerðist í dag. Þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks buðust til að reyna að flýta fyrir þeim málum eins og kostur er og hvíla þetta mál, vanreifaða, illa undirbúna og slæma mál sem hér liggur fyrir, en það var auðvelt fyrir hæstv. forsætisráðherra. Við skulum ekki vera í neinum feluleik með það að hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna stýra hér ekki einu eða neinu, hvað þá virðulegi forseti sem er á forsetastóli núna. Það er framkvæmdarvaldið og leiðtogar ríkisstjórnarinnar sem stýra hér för og sérstakur fulltrúi hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra kom hér inn og gaf algjörlega línuna fyrir virðulegan forseta um hvernig haga ætti þingfundi og færi í rauninni kannski bara betur á því að læða miða til virðulegs forseta í staðinn fyrir að vera með þau ræðuhöld sem hér voru.

Ég vildi, virðulegi forseti, af þessu tilefni lesa hér úr ræðu hv. þingmanns sem var haldin um svipað málefni, þó ekki jafnvanreifað eða illa undirbúið en þó um breytingar á Stjórnarráðinu fyrir nokkrum árum. Fyrst skal það nefnt sem þáverandi hv. þingmaður sagði þegar hann var að ræða um Stjórnarráðið og þá er hann að vísa til þess að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hafi staðið einstaklega vel að þessu. Hann sagði þá, með leyfi forseta:

„Þá voru menn ekki að kasta til höndunum, menn voru ekki að flýta sér þá, heldur settu þverpólitíska nefnd í málið og hún vann vel og lengi og niðurstaðan varð farsæl eins og verður gjarnan þegar þannig er að málum staðið.“

Síðan verður hv. þingmaður mjög reiður og hann er mjög ósáttur við þáverandi ríkisstjórn og segir, með leyfi forseta:

„Hvers má vænta næst? Kemur ríkisstjórnin einhliða með breytingar á kosningalögum? Ég held að framsóknarmenn ættu að hugsa út í það áður en þeir afsala sér málfrelsinu hérna.“

Þetta málfrelsi, virðulegi forseti, kallaði hv. þingmaður það að geta talað eins lengi í hverju einasta máli og menn vildu og því var hv. þáverandi þingmaður, sem er að vísu hæstv. ráðherra núna, mjög á móti. Hann talaði um að afsala sér málfrelsinu því að þessi hv. þingmaður var frægur málþófsmaður. Áfram segir hann:

„Kemur hún næst með einhliða breytingar á stjórnarskránni? Það er von að maður spyrji þegar löng og að mestu leyti órofin hefð fyrir að reyna að vinna í samstarfi flokka er rofin aftur og aftur, samanber nú lögin um Stjórnarráð Íslands og grundvallarskipan þeirra mála sem er auðvitað afar mikilvæg í stjórnkerfi okkar og stjórnsýslu, þingsköp Alþingis og fleiri slíkir hlutir.“

Og áfram heldur hann og segir:

„Er þetta ný stefna? Verða allar hefðir um samskipti flokka og vilja til að reyna að leita sátta og samstöðu um hin mikilvægari grundvallarmál bara gefnar upp á bátinn?“

Og enn heldur hann áfram á öðrum stað, þar segir hann:

„Á hverju þrífst og þroskast lýðræðið ekki síst? Á því að réttindi minni hluta og sjónarmið fái sanngjarna viðurkenningu og sanngjarnan sess og menn geti tekist á með rökum, menn hlusti á ólík sjónarmið og leyfi þeim að koma fram í málum.“

Og hæstv. núverandi ráðherra og þáverandi hv. þingmaður, og er svo sem enn hv. þingmaður, var svo reiður að hann lýsti þessum vinnubrögðum að vinna þetta ekki í samstarfi við flokka eins og hjá dönskum einvaldskonungum, var með þann samanburð að þetta væri eins og hjá dönskum einvaldskonungum, að þeir þæðu völd sín frá guði og þau kæmu af himnum ofan, og komi engum öðrum við en þeim sjálfum hvernig þeir fari með þau, og það þótti honum ekki farsælt.

Virðulegi forseti. Hann sagði líka í lok sinnar ræðu, og enn er verið að ræða breytingar á Stjórnarráðinu sem eru nú ekki jafnróttækar og þessar, þar segir núverandi hæstv. ráðherra:

„Maður hugsar þar um hluti eins og hagsmuni starfsfólks, viðkvæma málaflokka sem stefna í mikla upplausn eins og málefni á vegum landbúnaðarráðuneytisins og landamærin milli umhverfismála og atvinnuvega sem alls ekki fá þá útfærslu hér sem heppilegt væri, samanber neikvæðar umsagnir frá fjölmörgum undirstofnunum sem við þetta eiga að búa og gagnrýna að ekki skuli vera haft við þær samráð.“

Virðulegi forseti. Hvaða hv. þingmaður ætli þetta hafi verið? Hvaða hv. þingmanni fannst gersamlega fyrir neðan allar hellur að málið væri ekki unnið í samstarfi allra stjórnarflokkanna? Hvað hv. þingmaður skyldi það hafa verið? Hvaða hv. þingmaður skyldi það hafa verið sem líkti því að vinna þetta ekki í samvinnu allra flokka á þingi við danskan einvaldskonung? Hver skyldi það hafa verið, virðulegi forseti? Hvaða hv. þingmaður skyldi það hafa verið sem taldi að þingmenn væru að afsala sér tjáningarfrelsinu, málfrelsinu með því að hafa ekki þingsköpin eins og þau voru að menn gætu talað út í það óendanlega? Hver skyldi það hafa verið? Virðulegi forseti, það var hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, (Gripið fram í: Nei.) eða fyrrverandi fjármálaráðherra. Hann hefur fimm ráðuneyti, virðulegi forseti, og ég man ekki neitt af þeim.

Ég held, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra, þáverandi hv. þingmaður, hafi gengið allt of langt í gagnrýni sinni þarna. Þetta eru allt of sterk orð, það er ekki hægt að vera með samlíkingar eins og hv. þingmaður var með þarna, þetta er of langt gengið. Ég held samt sem áður að þessi gagnrýni eigi við núna, að það sé ekki skynsamlegt að vinna hlutina með þeim hætti sem gert er hér. Ég vek athygli á að það sem hv. þingmaður gagnrýndi þá gekk miklu skemur en það sem gert er núna. Það var gengið miklu skemur þá en það voru hins vegar miklu sterkari orð sem hv. þingmanni notaði þegar hann var að gagnrýna þetta þá en gert hefur verið núna. Þannig að þótt seint sé gagnrýni ég hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, hann var allt of harðorður, hann gekk allt of langt, en það er alveg rétt hjá honum, virðulegi forseti, að það er ekki farsælt að vinna svona mál í miklum ágreiningi.

Ég vil, virðulegi forseti, í þessari stuttu ræðu vekja athygli á að það væri og er mjög mikilvægt að við vinnum að því að endurskipuleggja ýmislegt sem snýr að Stjórnarráðinu. Við erum enn á sama stað og við vorum í upphafi þessa kjörtímabils þegar kemur að neytendavernd á fjármálamarkaði til dæmis. Allir eru sammála um það, hún er á víð og dreif, hún er hjá Fjármálaeftirlitinu, hjá Neytendastofu, hjá Samkeppniseftirlitinu, hjá umboðsmanni skuldara. Ef það hefur verið markmið að dreifa þessum stofnunum eins víða og mögulegt er þannig að þær eigi erfitt með að vinna saman verður því markmiði algjörlega náð ef þessi þingsályktunartillaga fer í gegn því að þá eru, held ég, engar tvær stofnanir sem sinna neytendavernd undir sama ráðuneyti.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti — og ég gleymdi því nú að hv. þáverandi þingmaður, Steingrímur J. Sigfússon, fór aðeins yfir það honum fannst ekki vera nægilega skilgreint hvað þetta átti að kosta allt saman — að hér höfum við horft á þessar endalausu stjórnarráðshræringar sem eru fyrst og fremst til komnar út af pólitískum hrossakaupum og það eina sem við vitum er að húsnæðiskostnaðurinn verður um hálfur milljarður. Það er það eina sem við vitum, við höfum ekki hugmynd um allan hinn kostnaðinn en hann er mikill og miklu meiri en þessi hálfi milljarður.

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þingmenn stjórnarliðsins til að lesa ræðu formanns Vinstri grænna um stjórnarráðbreytingarnar (Gripið fram í.) og (Forseti hringir.) er bara sjálfsagt ef einhver vill fá ljósrit, þá er ég tilbúinn til að koma þessu áleiðis.