140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, manni gæti alveg dottið í hug áráttuhegðun, að vilja breyta Stjórnarráðinu, þar sem þetta er sjötta breytingin sem hæstv. forsætisráðherra stendur fyrir á kjörtímabilinu. Hv. þingmaður kom aðeins inn á það að fyrirhugaðar væru stórfelldar breytingar á húsnæði — það kom í ljós að við fyrri sameiningu ráðuneyta, innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið eru mjög stór ráðuneyti, hefði húsnæðiskostnaður, breytingakostnaður, numið um 250 milljónum. Áætlað er að þær breytingar sem hér verði — ekki fylgir sundurliðað kostnaðarmat, það er ámælisvert og má kannski spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um það — kosti á bilinu 125 til 225 milljónir, sem er bara svona eins og að setja puttann upp í loftið og segja bara eitthvað.

Nú erum við að tala um 100 milljónir sem skeikar og kannski 200–250 milljónir allt í allt. Við höfum verið í blóðugum niðurskurði síðastliðin ár og miðað við þá stöðu sem ríkissjóður er í og hvernig mistekist hefur að ná jöfnuði í honum, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna um að þeir hafi náð því, má velta því fyrir sér hvort þetta sé rétti tíminn til að fara í slíkar breytingar og henda þessum fjármunum út.

Mig minnir, af því að hv. þingmaður er nú fyrrverandi heilbrigðisráðherra, að það hafi verið niðurstaðan í fjárlagagerðinni síðast að hæstv. velferðarráðherra hafi fengið 30 milljónir — eða hvort það voru 80, það er alla vega lítið brot af þessari upphæð — til að leysa vanda allra heilbrigðisstofnana á landinu sem út af stóðu þegar fjárlög voru samþykkt. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þessum fjármunum í byggingarframkvæmdir á þessum tíma sé vel varið. — Það getur vel verið að spurningin sé svolítið leiðandi.