140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður lauk máli sínu, að hálfur milljarður færi í húsnæðiskostnað við breytingar á þessum ráðuneytum. Ég vil benda þingmanninum á að þetta er ekki eini kostnaðurinn sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir frá því að hún var kjörin. Ég minni á að nú þegar liggja 1.000 milljónir undir í stjórnlagaráðsruglinu öllu sem hæstv. forsætisráðherra hefur staðið fyrir og boðar nú 250 millj. kr. kostnað við þjóðaratkvæðagreiðslu í október sem enginn veit hvað fjallar um. Auk þess er ég nýbúin að fá svör varðandi nefndir, ráð og verkefnahópa sem ríkisstjórnin hefur sett á stofn frá því að hún tók við — telur hátt í 400 nefndir og ráð — og þar liggja 600 milljónir. Og þá er ekki hægt að finna út úr svörunum hvað þessir hópar sem hæstv. utanríkisráðherra kom á fót við aðildarumsóknina hafa kostað skattgreiðendur.

Sóunin á opinberu fé hjá þessari ríkisstjórn er alveg gríðarleg, bara þau atriði sem ég nefni hér eru 2,5 milljarðar. Tveir og hálfur milljarður á meðan ríkisstjórnin gengur mjög frekt fram og sker niður íslenska heilbrigðiskerfið, sker lögregluna niður að hungurmörkum — ástandið hjá lögreglunni er orðið svo skelfilegt að þeir eru farnir að biðja um vopn, forgangsröðun er alveg skelfileg.

En eins og einhver sagði hér fyrr í kvöld er þetta alveg í takt við það sem við sjáum gerast í stjórnuninni á Reykjavíkurborg eftir að vinstri menn komust inn fyrir dyr í Ráðhúsinu. Það sem vinstri menn kunna helst er að eyða skattfé sem hinn almenni vinnumarkaður aflar.

Ég sé að tíminn er hlaupinn frá mér en ég ætla þá bara að varpa því fram hvort þingmanninum þyki þetta ekki mikil sóun á almannafé á þremur árum.