140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef kallað þetta kratavæðingu hingað til og kratavæðing er þetta því að eins og ég kom inn á áðan kunna vinstri menn best að eyða almannafé.

Mig langar að fara aðeins yfir í auðlinda- og umhverfisráðuneytið vegna þess að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson var með athyglisverða fyrirspurn fyrir ekki svo mörgum dögum varðandi reglugerð um friðun á svartfugli, sem við höfum þurft að taka upp í gegnum EES-samninginn. Nú er litið svo á að þessir fuglar séu friðaðir. Ég tengi þetta saman við það ráðuneyti sem á að fara að stofna hér, sameinað umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Íslendingar hafa til dæmis litið á veiðar á svartfugli og eggjatöku sem auðlind og það er flokkað sem náttúruauðlind hér á landi og er ekki í útrýmingarhættu, svona svipað eins og hvalirnir sem bannað er að veiða í Evrópusambandinu og má veiða hér. Eins höfum við þurft að taka upp reglugerðir varðandi friðun refs. Nú eru Kínverjar til dæmis farnir að sækja á loðdýrabændur á Íslandi að fá að flytja út refakjöt þegar við Íslendingar erum búnir að nýta skinnin af þeim og koma þeim í verð. Hvernig lítur þingmaðurinn á þessi mál í ljósi þess að allar reglur umhverfisráðuneytisins koma frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn og það er bara kranalagasetning í umhverfisráðuneytinu frá Evrópusambandinu?

Er á einhvern hátt verið að sameina auðlindamál og umhverfisráðuneyti þannig að hægt sé að segja að auðlindir okkar, eins og til dæmis svartfugl, hvalir og aðrir stofnar sem við erum að nýta, tilheyri orðið umhverfismálum og séu ekki auðlindir í skilningi Evrópusambandsréttarins til að hægt sé til dæmis að setja á okkur hvalveiðibann (Forseti hringir.) í ljósi þess að auðlindin er komin inn í umhverfisráðuneytið eða réttara sagt sameinað umhverfis- og auðlindaráðuneyti?