140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kemur hér að nokkrum málum. Eitt er það sem snýr að því hvernig leynt og ljóst er verið að lauma inn aðlögun í tengslum við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er bara mjög einfalt að þetta er mjög ólíkt því sem við Íslendingar eigum að venjast. Á mörgum sviðum getum við lært mjög mikið af öðrum þjóðum og eigum alltaf að gera það. En í þessu tilfelli getum við ekki lært af Brussel, þegar kemur að nytjum á náttúruauðlindum.

Við Íslendingar höfum þurft að lifa af náttúrunni, bæði með henni og af henni, og fjölmörg alþjóðleg umhverfisverndarsamtök, sem hafa kannski ekki verið vinsamleg okkur í öllum tilfellum, hafa svo sannarlega gefið okkur vottorð um þessa hluti svo að einhver dæmi séu tekin. Þetta er einn þátturinn. Síðan er hitt, sem er alvarlegra, og ekki er hægt að kenna Evrópusambandinu um það, það er það hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur praktíserað sín umhverfismál og ætlar að taka þar yfir fleiri.

Hæstv. ríkisstjórn, og sérstaklega Vinstri grænir, er að koma óorði á umhverfisvernd, er að koma óorði á náttúruvernd. Ef svo heldur fram sem horfir munu þeir eyðileggja hugtakið þjóðgarð. Þegar það er orðið á þann veg að allt er bannað nema það sé sérstaklega leyft, eins og verið er að vinna leynt og ljóst að í stefnu hæstv. ríkisstjórnar, erum við komin í mjög slæm mál.

Það að fara að reyna að banna allt það sem okkur hefur fundist sjálfsagt og tengist því að við viljum nýta náttúruna á sjálfbæran hátt, að slíkar hugmyndir séu á stjórnarheimilinu, er mjög alvarlegt. Það er enginn vafi á því að ef við komum fleiri málaflokkum undir umhverfisráðuneyti, eins og það er praktíserað núna, þá erum við Íslendingar í verulega slæmum málum.