140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir ræðu hans, sérstaklega hugleiðingarnar um skiptingu auðlinda á milli ráðuneyta. Það hefur verið til umræðu í kvöld að mjög óskýrt sé hvað fari hvert, hvert undirstofnanir fari og hvað sé raunverulega áætlað með auðlindir landsins í þessum breytingum. En það var ekki það sem ég ætlaði að ræða í þessu andsvari.

Mig langar að fá álit hv. þm. Birgis Ármannssonar þar sem ekki fylgir með þessari þingsályktunartillögu neitt kostnaðarmat að undanskildu því að talað er um húsnæðiskostnað upp á 150–250 milljónir, mjög óljós tala og munar þar 100 milljónum á milli, hvort Alþingi og alþingismenn láti ekki með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu af hendi fjárstjórnarvald Alþingis til framkvæmdarvaldsins og þá líka eins, vegna þess að hér eru sífelldar reglugerðarheimildir veittar í lögum almennt sem er að vísu ekki í þessu máli því að þetta er þingsályktunartillaga, hvort honum þyki þessi ríkisstjórn ekki standa fyrir miklu framsali úr þingsal á lagasetningarvaldi.

Í þriðja lagi langar mig til að spyrja þingmanninn um áhrif þess verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt og hún nái að koma til framkvæmda í haust — þessar breytingar eiga að koma til framkvæmda í haust. Hvað gerist ef ríkisstjórnin springur eða hrökklast frá völdum nú á vordögum og búið er að samþykkja þingsályktunartillöguna? Hver er (Forseti hringir.) þá skylda nýs ríkisstjórnarmeirihluta að fylgja þessum málum eftir áður en til framkvæmdarinnar kemur?