140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:15]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í raun get ég svarað spurningu hv. þingmanns með þeim hætti að mér finnst svona í grunninn alveg galið ef á að láta einhverja stofnun heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti. Mér finnst það vera hreinasta vitleysa. Ég held að það sé öllum fyrir bestu, bæði stofnununum og þeim sem eiga samskipti við þær úti í þjóðfélaginu, hagsmunaaðilum, einstaklingum og öðrum, fyrir utan auðvitað ráðuneytin og starfsmenn þeirra, að það sé skynsamlegast og skýrast að hafa þessi mörk, valdmörk og mörk í verkaskiptingu, eins skýr og kostur er. Mér finnst mikilvægt að þetta sé allt saman eins skýrt og kostur er.

Ég held að sú viðleitni að reyna að hafa þessa hluti óljósa með því að vísa með óljósum hætti til þess að ráðuneyti eigi að koma saman að ákvarðanatöku og þess háttar sé fyrst og fremst bara til að ýta vandamálinu á undan sér. Menn vilja ekki höggva á hnútinn í dag til að stuða sem fæsta, ögra sem fæstum og reyna að hafa alla góða og fyrir vikið er vandamálinu ýtt inn í framtíðina en vandamálin munu koma upp þegar ágreiningur verður um það hvar valdið liggur raunverulega, hvar línan í verkaskiptingunni á að liggja. Ég held að það sé miklu betra að taka af skarið um þetta fyrir fram þannig að þetta sé alveg klárt og kvitt.

Varðandi það sem hv. þingmaður segir um Norðurlöndin þá er athyglisvert þegar farið er í gegnum þá lista sem fylgja með í þeim gögnum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk í hendur um skipan þessara mála annars staðar á Norðurlöndum að þetta er ekki einhlítt, þetta er mismunandi milli landa. Það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í þessari tillögu er alls ekkert frekar að norrænni fyrirmynd en eitthvert allt annað fyrirkomulag. Það má finna fordæmi fyrir sumu en alls ekki öðru.