140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil halda aðeins áfram með þetta samkrull þar sem fleiri en einn ráðherra virðist eiga aðkomu að stofnunum. Nú þekkjum við þessa fyrirmynd hjá núverandi ríkisstjórn. Þegar við til að mynda lögðum niður Varnarmálastofnun enduðu mál með þeim hætti að hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra fóru sameiginlega með ýmis öryggismál.

Ég vil spyrja hv. þingmann í ljósi þingmannaskýrslunnar, þar sem ítrekað er talað um hve mikilvægt sé að hver ráðherra hafi ábyrgðarsvið og mikilvægi þess hvernig hann fari með vald eða yfirráð yfir sjálfstæðum undirstofnunum, hvort ekki sé varhugavert að fara að margfalda þá slæmu fyrirmynd sem ríkisstjórnin virðist hafa tekið upp varðandi Varnarmálastofnun og hugsanlega má halda því fram að þær breytingar sem gerðar voru á Farsýslunni og Vegagerðinni séu eitthvað álíka. Er ekki verið að fara þvert gegn þeim hugmyndum (Forseti hringir.) sem menn voru að tala um, að skýra ábyrgðarsvið einstakra ráðherra og yfirráð þeirra yfir (Forseti hringir.) ríkisstofnunum?