140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa afar upplýsandi ræðu sem hér var flutt. Mig langar að velta upp ákveðnum þáttum við hv. þingmann af því að hann er nefndarmaður í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mér var auðsýndur sá heiður að fá að sitja þá daga í nefndinni sem þetta mál var til umfjöllunar þar.

Nú hefur það komið fram að á fyrri stigum málsins hafi verið gríðarlega mikil andstaða við það, t.d. meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi, landbúnaði og fleiri. Hins vegar hafa ákveðin samtök verið frekar fylgjandi ráðuneytisbreytingunum.

Fram kom á fundum hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem var verið að ræða þetta mál að jafnvel aðilar sem hafa áður verið frekar fylgjandi þessum hugmyndum eru að snúast gegn þeim og mæltu síður með þeim breytingum sem hér er fjallað um. Mig langar til að fá sýn hv. þingmanns á þetta, hvort hann gæti ekki staðfest það hér þar sem það eru einungis orð nefndarmanna sem liggja til grundvallar vegna þess að málið var ekki sent út til umsagnar.

Getur hv. þingmaður ekki staðfest það að skilningur hans sé sá sami og minn, þ.e. að andstaða við málið hafi vaxið frekar en hitt hjá aðilum sem hafa tjáð sig um stjórnarráðsbreytingarnar á þessu kjörtímabili?

Seinni spurningin er: Hefði ekki verið eðlilegt að málið hefði farið til umsagnar og fengið eðlilega málsmeðferð og þá hefðu sjónarmið, mörg hver, komið fram hvað þetta snertir?