140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:26]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að aðstæður í þessu máli og eins reynslan frá undanförnum árum sýni okkur að best sé að vinna svona mál eins vel og kostur er, það sé best að senda þau til umsagnar og fá álit þeirra sem bæði hafa hagsmuni af niðurstöðunni og eins þekkingu á því fyrirkomulagi sem verið er að ræða. Það er auðvitað ekki svo að hagsmunaaðilar, hagsmunasamtök, áhugamannafélög og aðrir komi fyrir þingnefndir eða láti í ljós álit sitt bara til að þrýsta á einhverja tiltekna niðurstöðu í þágu sinna hagsmuna.

Það er einnig mjög gagnlegt fyrir þingið og þingmenn að eiga samræður og fá upplýsingar frá þeim samtökum um reynsluna af fyrirkomulaginu eins og það hefur verið. Hagsmunasamtök í atvinnulífinu, svo dæmi sé tekið, eru í mjög mörgum tilvikum þeir aðilar sem hafa hvað mest samskipti við stjórnvöld og hafa þar af leiðandi hvað mesta þekkingu á því sem þar fer fram. Auðvitað hefði eðlilegt umsagnarferli verið til mikilla bóta í þessu máli og jafnframt hefði verið til bóta ef við í nefndinni hefðum haft betra tækifæri til að eiga samræður við þá gesti sem þó komu á fund okkar.