140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vísa í orð hæstv. fjármálaráðherra frá því í dag þegar hún taldi að vorið væri mikill uppskerutími. Nú er klukkan að verða hálftvö og ekkert bólar á hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til að taka þátt í þeirri miklu uppskeru sem þetta mál er greinilega að gefa um miðja nótt.

Ég ætla að fylgja fordæmi félaga minna í þinginu og ekki bara fara fram á að hæstv. forsætisráðherra sitji í þingsalnum, heldur að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra komi hingað og taki þátt í þeim uppskerustörfum sem við vinnum þessa nótt.

En að öðru. Mig langar í mestu einlægni að spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé orðið tímabært að fara bráðlega að hleypa okkur heim svo við getum alla vega farið í sturtu á milli funda því að við eigum að mæta á nefndafundi kl. hálfníu í fyrramálið. Er ekki hægt að fá einhvern botn í þetta, frú forseti?