140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Að gefnu tilefni vil ég segja að engin hótun lá í þeim orðum mínum hér að málið gæti þess vegna verið rætt í dag eða eftir viku. Ég var einfaldlega að benda þingheimi á að ef við tökum málið ekki úr umferð tímabundið eins og við lögðum sannarlega til — það er svo óheyrilega sorglega rangt að heyra hv. þm. Björn Val Gíslason koma hingað upp trekk í trekk og reyna að snúa því og tvista að því frumkvæði að sátt að breyta dagskrá sem kom frá þingflokksformönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í dag var hafnað af stjórnarliðum. Þess vegna erum við að ræða þetta mál.

Ég vil benda á að það eru margir á mælendaskrá, það getur vel verið að umræðan haldi áfram og á meðan þessi umræða heldur áfram verða ekki önnur mál rædd. Við buðum það að önnur mál yrðu tekin á dagskrá og kæmust til nefnda til að hægt yrði að nýta nefndadagana í næstu viku og það er stjórnarliðanna að útskýra (Forseti hringir.) fyrir öllum, bæði þingheimi og öðrum, af hverju í ósköpunum það var ekki gert.