140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ekki nóg með það að hér séu í gildi vökulög, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, heldur er í gildi reglugerðartilskipun frá Evrópusambandinu sem kveður á um 11 klukkustunda hvíldartíma á milli vakta í vinnu, enda flissuðu þeir mikið áðan, þingmenn Samfylkingarinnar, þegar var verið að tala um óeðlilegan vinnutíma í íslenska þinginu, klöppuðu á kné sér og sögðu: Þetta er sko ekki svona í Evrópusambandinu. Þá höfum við það. [Hlátur í þingsal.] Þetta skýrir kannski það að hér sést varla nokkur einasti stjórnarþingmaður. Þeir eru líklega komnir á evrópskan tíma og í evrópska vinnulöggjöf og fara sjálfir eftir sínum 11 klukkustunda hvíldartíma.

Ég minni frú forseta á að það er langt síðan 11 tíma hvíldarmarkið gekk yfir á þessu kvöldi og líka í gærkvöldi og fer fram á það í fyllstu einlægni aftur að forseti upplýsi um það hversu lengi þessi þingfundur á að standa því að nú er nóg komið að mínu mati.