140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vandinn í þessu máli blasir algerlega við. Hann er sá að hv. forustumenn þingflokka stjórnarflokkanna líta þannig á að samningar felist í því að annar aðilinn samþykki allt sem hinn leggur til.

Það var komið með mjög rausnarlegt tilboð í dag af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna sem var að greiða fyrir því að 10–15 mál eftir því sem mér skilst yrðu afgreidd í dag og gætu þá gengið til nefnda á nefndadögum eftir helgi og síðan yrði þá tekið til við það mál sem við ræðum núna. Niðurstaða stjórnarliða var hins vegar sú að hafna þessari tillögu algerlega og halda áfram eins og leið lá með þetta mál sem við erum með í dag og taka síðan hin málin.

Á mánudaginn lukum við nokkurn veginn umræðu um lítið ágætismál og hefði mátt vænta þess að þeirri umræðu lyki á 20–30 mínútum, (Forseti hringir.) eða eitthvað slíkt, en sú umræða var sem sagt rofin á mánudagskvöld og tekið til við þessa umræðu. Það hefði auðvitað verið miklu eðlilegra að taka aftur (Forseti hringir.) til við þá umræðu sem við vorum í miðjum klíðum við og vorum að klára því að við hefðum getað klárað það mál á nokkrum mínútum.