140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:58]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég hyggst dýpka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um þetta mál allverulega frá því sem hv. stjórnarliðar hafa hlýtt á áður og vænti þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi við hlustir fyrst hann hefur sýnt okkur þann sóma að birtast í salnum. Ég tók eftir því áðan, þegar ég gekk fram í Skála, að töluvert hafði gengið á veitingarnar sem þar eru til reiðu. Ég veit ekki hvort þar er um að kenna þaulsetu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar eða þeirri tilhneigingu þingmanna að safna orku fyrir umræðu sem á eftir að standa fram undir morgun eða fram á morgundaginn.

Ég tel nauðsynlegt fyrir forsvarsmenn þessa máls að svara því hverjir þeir almannahagsmunir eru sem kalla á að það mál sem hér er rætt komi fram. Hefur það verið gert? Hefur greining á því verið lögð fyrir þingið? Nei, það er ekki svo. Hefur þeim markmiðum verið lýst sem ætlunin er að ná fram? Það er vissulega gert en ekki verður sagt að það sé ítarlega gert. Markmiðunum sem ætlunin er að ná fram með þessu máli er svo lýst að það sé að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara. Það er allt og sumt sem felst í markmiðslýsingunni og greiningunni í því þingmáli sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í.) Kallað er eftir frekari upplýsingum og við fyrri umræðu um málið upplýsti hæstv. móðurráðherra, eins og hann kallaði sig þá, hæstv. forseti, að til væri fullt af gögnum sem yrðu lögð fram við síðari umræðu um málið, viðurkenndi þar með að greinargerðin með þessu stóra máli sem við ræðum væri örþunnt skjal, lítið að innihaldi, illa rökstutt.

Hver er bakgrunnur þessa máls? Hann má finna í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Vinstri grænna frá árinu 2009. En er fjallað mikið um hann hér? Nei. Hvers vegna skyldi það vera? Einfaldlega vegna þess að þetta mál fellur ekki að þeim sama stjórnarsáttmála. Eins og sumir stjórnarliðar hafa lýst í ræðum þá er verið að taka 180° beygju frá ákvæðum stjórnarsáttmála. Það er því ekkert skrýtið þó að forustumenn ríkisstjórnarinnar vilji ekki ræða þetta efni, ekkert undarlegt og kann vel að vera að það sé við hæfi að glotta við tönn eins og hæstv. ráðherra gerir.

Önnur spurning sem vert er að spyrja: Er þetta mál í samræmi við stjórnarskrá Íslands? Um það eru skiptar skoðanir en ég hef ekki orð ómerkari manneskju en hæstv. forsætisráðherra fyrir því að þetta mál stenst ekki stjórnarskrá landsins. Þau orð féllu úr ræðustóli þar sem hæstv. forsætisráðherra sagði að það væri í raun í andstöðu við 15. gr. stjórnarskrárinnar, og hefði einhvern tíma þótt tíðindi og örugglega gert að umtalsefni fyrrum ef menn hefðu ekki verið í þeirri stöðu sem þeim er skipað í í dag.

Hefur þeirri spurningu verið svarað hvaða áhrif þessi þingsályktunartillaga mun hafa á þá starfsemi sem hér heyrir undir? Það er sagt í almennum orðum. Það er greint með nokkrum hætti, vissulega. Er lagt mat á það hvaða áhrif þetta mál hefur á fjárhag ríkissjóðs? Að nokkru leyti, já. Það mat er lagt á þetta mál að það muni kosta á bilinu 100–250 millj. kr. Tæpast telst það mjög nákvæm útlistun á þeim kostnaði sem til fellur. Það liggur hins vegar fyrir, og kemur glögglega fram í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að markmiðið er ekki að spara. Markmiðið er að auka við útgjöld ríkisins án þess að það sé viðurkennt.

Hver er kosturinn eða ávinningurinn við þetta mál? Hefur verið sýnt fram á það í þeirri greinargerð sem fylgir? Nei. Það hefur ekki verið gert. Fylgir einhver greining málinu sjálfu frá hæstv. forsætisráðherra sem leggur þetta fram eða í greinargerð eða nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar? Liggur fyrir einhver greining á áhrifum þess á stjórnsýslu ríkisins og þess vegna eftir atvikum á stjórnsýslu sveitarfélaga sem tengjast sumum málaflokkum í þessum efnum? Liggur fyrir með hvaða hætti gera á breytingar á stjórnsýslunni, verklagi og öðrum þáttum sem þetta snertir, fjölda starfsmanna? Nei, þetta liggur ekki fyrir. Það er hins vegar upplýst í greinargerðinni að gera megi ráð fyrir því að verkefnum Umhverfisstofnunar og störfum þar muni væntanlega fjölga. Ekki er lagt neitt mat á þann kostnað sem af því leiðir. Ekki er heldur lagt mat á þann kostnað sem leiðir af því að færa hluta verkefna efnahags- og viðskiptaráðuneytisins undir fjármálaráðuneytið. Þó er beinlínis sagt, þegar reynt er að rökstyðja þær tillögur sem liggja fyrir, að ástæðan fyrir því að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið í núverandi mynd sé sú að það sé of dýrt, fjárfrekt, að efla þurfi það eins og kostur er. Það á þá að efla þá starfshætti sem þar eru innan borðs með því að færa það inn í fjármálaráðuneytið án þess að því fylgi fé. Þetta gengur einfaldlega ekki upp.

Er þetta mál auðskiljanlegt almenningi? Nei, ég met það að svo sé ekki. Þó ekki væri nema fyrir það eitt að í umræðunni um þetta tala menn greinilega þvers og kruss, hvort heldur það er viljandi eða óviljandi, en það gengur greinilega mjög illa að koma sér saman um sama skilning á því innihaldi sem hér liggur fyrir þó sérstaklega að því sem lýtur að nýju ráðuneyti fjármála og efnahagsmála. Þó eru ákveðnir þættir í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem sömuleiðis eru töluvert óskýrir og nægir í því sambandi að nefna þá umræðu sem átt hefur sér stað um málefni Hafrannsóknastofnunar.

Í umræðunni eins og hún hefur átt sér stað er ekki einungis ólíkur skilningur stjórnar og stjórnarandstöðu heldur er beinlínis um að ræða mismunandi skilning forsvarsmanna þessa máls, þ.e. forustumanna hæstv. ríkisstjórnar, á því hvernig þeim málum kunni að verða skipað og er þetta þó eitt af þó nokkuð mörgum málum sem hvað viðkvæmast er í þeirri tillögu sem fyrir liggur. Hefur verið hugað að þeim tíma sem einstaklingar eða fyrirtæki þurfa til að laga sig að þeim nýju þáttum sem hér er lögð áhersla á? Nei, svo er ekki.

Það kann vel að vera, og það sér maður í svipbrigðum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að mönnum ofbjóði hvernig þetta mál er sett fram í spurningaformi, en svo einkennilega vill til að þessar spurningar eru beinlínis studdar þeirri handbók Stjórnarráðsins sem segir til um það hvernig undirbúningi mála skuli háttað þegar þau eru lögð frá ríkisstjórn fyrir Alþingi. Í engum eða sárafáum tilvikum hefur þeim reglum verið fylgt og því er staða málsins með þeim hætti sem raun ber vitni.