140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[02:11]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil strax taka fram að móður- og föðurhlutverkið er í mínum huga mikilvægasta verkefni sem hver manneskja tekst á við í lífinu og mér finnst dálítið kauðskt af forustumönnum ríkisstjórnar að lýsa hlutskipti sínu á þann veg sem þar um ræddi. Það stenst ekki með neinum hætti samjöfnuð við það hlutverk sem feðrum og mæðrum þessa heims er ætlað í lífinu, enda gangast viðkomandi ekki við þessu hlutverki af þeirri tilhlýðilegu virðingu sem ætlast er til, sérstaklega þegar því er lýst yfir að smala þurfi köttum. Ég geri ráð fyrir að það sé það háttalag sem forustumenn ríkisstjórnarinnar stunda nú í kvöld í ljósi þaulsetu þeirra frammi í sal yfir einhverjum veitingum, ég held að megintilgangurinn sé sá að smala köttum og halda þeim innan einhverrar girðingar.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um afsal fjárstjórnarvaldsins frá Alþingi til ríkisstjórnar má í raun taka undir þau sjónarmið í ljósi orðalags þeirrar tillögu sem fyrir liggur. Þar fer ríkisstjórnin fram á að Alþingi styðji fyrirhugaðar breytingar án þess að fyrir liggi ákveðið kostnaðarmat en vitað sé að þær muni leiða til útgjalda sem ekki sé gert ráð fyrir í fjárlögum. Þá er beinlínis verið að óska eftir því að Alþingi gefi fyrir fram (Forseti hringir.) leyfi til fjárútláta sem ekki er heimild fyrir í fjárlögum þessa árs.