140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[02:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega það sem þetta mál snýst um. Verið er að fara fram á það við okkur þingmenn að við samþykkjum þessa þingsályktunartillögu sem er algerlega órökstudd og, eins og ég fór yfir áðan, sem er algerlega opinn tékki því það veit enginn og varla ríkisstjórnin sjálf í hvaða upphæð þessar breytingar enda.

Það er að vísu áréttað í þingsályktunartillögunni sjálfri eða réttara sagt í nefndaráliti meiri hlutans að þessar breytingar séu ekki gerðar í hagræðingarskyni. Við vitum hvað það þýðir. Það þýðir að það er ávísun á enn frekari útlát fyrst það er ekki markmiðið að sameina ráðuneyti í hagræðingarskyni. Það þýddi nú ekki að bjóða upp á þetta á hinum almenna markaði þar sem verið er að sameina fyrirtæki til að ná fram hagræðingu og sparnaði til að gera viðkomandi fyrirtæki lífvænlegri í rekstri. Nei, nei. Hér fer vinstri stjórnin fram með óútfylltan tékka, ætlast til að við þingmenn samþykkjum þann opna tékka og biður okkur í leiðinni um að brjóta stjórnarskrána. Við sverjum eið að stjórnarskránni þegar við tökum sæti á Alþingi og það er skýrt í henni að þingmenn fara með fjárstjórnarvald Alþingis.

Sá háttur ríkisstjórnarinnar að leggja fram fjárlög með svo og svo stóru gati og koma svo alltaf í kjölfarið með fjáraukalög sem stækka gatið enn frekar á fjárlögum er ekki boðlegur. Ekkert lát virðist vera á þessu háttalagi því að eins og þetta er lagt til í þessu máli er þetta algerlega án verðmiða.