140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[02:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það hefur ekki komið annað til tals en að virða niðurstöðu og ákvörðun forseta þingsins, þó það nú væri. Menn geta samt haft skoðanir á því og ég er ósammála þeirri ákvörðun forseta þingsins að slíta fundi. Að sjálfsögðu munu þingmenn samt virða þá ákvörðun, þó það nú væri.

Mér finnst ótækt að fresta umræðunni þegar margir eru á mælendaskrá. Það er greinilega margt eftir órætt í þessu máli. Margir eiga örugglega eftir að segja margt og merkilegt í viðbót (Gripið fram í.) við þær fjölmörgu ræður sem þegar hafa verið haldnar.

Varðandi það tilboð sem kallað var að hefði verið lagt fram í dag af hálfu þingflokksformanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var þar ekki boðið upp á samkomulag um það mál sem hér er verið að ræða um. Því var hafnað að semja um lyktir þess máls, þ.e. hvenær ætti að ljúka umræðunni, (Gripið fram í.) hvort það yrði í dag eða kannski á morgun. Þannig lá það fyrir. Það þýðir ekki að neita því. Það var ekki umsemjanlegt (Forseti hringir.) af hálfu stjórnarandstöðunnar þannig að það komi skýrt fram.

Tilboðið svokallaða sem báðir hv. þingmenn lögðu fram um að setja málið í nefnd (Forseti hringir.) var háð því að ekki yrði samið um það mál sem hér er verið að ræða um.