140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

skýrsla um áhrif frumvarpa um sjávarútvegsmál.

[10:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel að það hafi verið gagnlegt að fá þessa greinargerð fram eins og önnur sjónarmið í þessu máli. Þar koma ýmsar ábendingar fram sem er rétt og skylt að fara yfir og sú gagnrýni á veiðigjöldin að þau yrðu of há. Það er ekki vegna þess að auðlindarentan sé ekki til staðar í sjávarútveginum, það er ekki niðurstaða skýrsluhöfunda, heldur fyrst og fremst vegna þess að því miður séu sum sjávarútvegsfyrirtækjanna enn svo illa skuldsett að þau mundu lenda í vanda af þeim sökum. Auðlindarentan er til staðar. Framlegðin er geysileg í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir eða um 75 milljarðar kr., og hefði einhvern tíma dugað, en sá dapurlegi veruleiki birtist okkur að enn eru sum sjávarútvegsfyrirtækin svo illa lestuð skuldum, þrátt fyrir afar góða afkomu undanfarin fjögur ár, að þau mundu lenda í erfiðleikum með gjöldin. Það er auðvitað veruleiki sem verður að takast á við og ber að skoða. Við höfum allan tímann sagt að markmiðið væri að finna hóflega auðlindarentu sem greinin réði vel við að greiða en byggi áfram við góð skilyrði.

Í skýrslunni er vissulega bent á ákveðna tæknilega vankanta sem eru vel þekktir varðandi álagningu veiðigjalda á grundvelli tveggja ára gamalla gagna og vandamál sem geta við vissar aðstæður þegar mikil sveifla verður skyndilega í afkomunni tengst framreikningi á þeim gömlu gögnum. Það er vel þekkt vandamál sem búið er að liggja mikið yfir hvernig væri hægt að leysa. Vænlegast væri auðvitað að fá meiri samtímagögn í hendur og að því vinnur Hagstofan, að leggja grunn að því að vera með miklu meira af samtímagögnum undir þegar hún metur afkomuna en nú er, þannig að þá aðferð þarf að þróa.

Það er að sjálfsögðu afar einfalt mál að breyta álagningarstuðlum í veiðigjaldafrumvarpinu, það kostar ekki grundvallarendurskoðun á því heldur er það bara ákvörðun um að breyta álagningarstuðlum (Forseti hringir.) þannig að gjaldtakan verði á hóflegu róli.