140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

skýrsla um áhrif frumvarpa um sjávarútvegsmál.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er augljóst að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur einfaldlega ekki unnið heimavinnuna sína áður en málið var lagt fram. Hér er ruglað saman alls konar hugtökum eins og framlegð í sjávarútvegi og rentu, og sagt að vegna þess að framlegðin er góð hljóti auðlindarentan að vera gríðarleg. Þetta er akkúrat kjarni vandans. Ráðherrann hefur ekki lagt í þá vinnu að finna út hver auðlindarentan er. Þessu er bara kastað inn í þingið með einhverjum reiknistuðlum sem standast enga skoðun, allar helstu forsendur málsins hafa brostið þegar menn fara að kafa ofan í það og nú er það sem sagt þingsins að finna út úr því hver auðlindarentan er, í frumvarpi sem ráðherrann lagði fram. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Það er ekki hægt að tefla svona máli fram á lokadögum þingsins og krefjast þess að það sé afgreitt í flýti, það er ekki boðlegt.

Það er sjálfsagt að reyna að finna út úr því hver auðlindarentan er en það er ráðherrann sem átti frumkvæðið að málinu og lagði það fram á kolröngum forsendum. Mér finnst að menn skauti tiltölulega létt fram hjá því að bera ábyrgð á málum (Forseti hringir.) eins og farið hefur fyrir þessu máli. Mér finnst að ráðherrann eigi að lýsa því yfir að hann hafi gert mistök með því að leggja málið svona fram.