140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

eftirlitsnefnd um framkvæmd skuldaaðlögunar.

[10:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hélt ég hefði svarað því alveg skýrt, ég hef engar upplýsingar í höndum, engin gögn eða neitt sem bendir til þess að þarna hafi átt sér stað einhver trúnaðarbrot eða að einhver trúnaðarbrestur sé orðinn. Ég geri skýran greinarmun á persónulegum skoðunum sem menn setja fram undir eigin nafni í blaðagreinum og störfum þeirra að öðru leyti. Það hafa allir frelsi til að tjá sig í þessu landi og lýsa skoðunum sínum hvort sem okkur líkar við þær eða ekki. Þaðan af síður finnst mér maklegt að blanda viðhorfum manna inn í mál af þessu tagi hvort sem það er til utanríkispólitískra mála eða annarra hluta.

Ég hef heldur engar upplýsingar um að nokkur hafi misbrestur orðið í meðferð opinberra fjármuna, hvorki að því leyti til sem Bændasamtökin fara með tiltekið hlutverk og annast um útgreiðslu fjármuna á grundvelli samninga milli ríkisvaldsins og bænda, né veit ég til þess að nokkur skapaður hlutur sé að í fjármálum eða bókhaldi Bændasamtakanna sjálfra, en um það hef ég að sjálfsögðu afar takmarkaðar upplýsingar. En meðan ekkert slíkt hefur komið upp þurfa menn að hafa eitthvað fyrir sér í því (Forseti hringir.) áður en þeir fullyrða að svo sé.