140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

[10:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir síðustu orð hv. þingmanns. Það er afar mikilvægt að reyna að lenda þessu máli og ljúka þeim deilum sem staðið hafa lengi, en ég held að við sem höfum einhverja forsögu í þessum efnum og þekkjum eitthvað til þessara mála höfum allan tímann vitað að það yrði aldrei gert öðruvísi en átök yrðu um það. Ég man aldrei eftir því að sjávarútvegsmál hafi verið rædd á Alþingi í 29 ár svo ég þekki til án þess að um þau væri einhver ágreiningur. Þetta er alltaf mikið hita- og tilfinningamál og við skulum ekki gleyma því að þarna takast líka á miklir hagsmunir. Í þessu máli eru sérhagsmunir sem sóttir eru og varðir af býsna mikilli hörku, eins og umræðan undanfarna daga ber með sér. Við skulum ekki gleyma því.

Ég frábið mér allt tal um stjórnarskrárbrot en það er athyglisvert. Ég vildi þá spyrja hv. þingmann á móti: Er hann sömu skoðunar? Nálgast hann málið út frá einkaeignarréttarlegum sjónarhóli með þeim hætti að hann telji að það gangi gegn stjórnarskránni ef eigandi auðlindarinnar, þjóðin, gerir einhverjar tilteknar ráðstafanir með hana? Á því byggja menn vangaveltur sínar um stjórnarskrárbrot nema þá að farið sé offari og ekki virt meðalhófsregla og annað í þeim dúr.

Ég ætla ekki að tjá mig um mögulegar einstakar efnisbreytingar á þessum frumvörpum. Það er ljóst að veiðigjöldin og upphæð þeirra sæta langmestri gagnrýni og ég held að það liggi í loftinu að á þeim verði gerðar breytingar og að sjálfsögðu verður það skoðað að lagfæra þar tæknileg vandamál sem við er að glíma og eru til staðar í núverandi álagningu veiðigjalds, vel að merkja, þannig að því sé haldið til haga. En menn geta vissulega sagt að eftir því sem veiðigjöldin eru hærri eru slík tæknileg vandamál, eins og að byggja á gömlum gögnum og nota framreikning á þeim, erfiðari viðureignar og þá þarf að leita lausna á því. Málið er í höndum atvinnuveganefndar og hún tekur nú á móti umsögnum og vinnur að þeim í málinu. Þar af leiðandi tel ég ekki sé við hæfi að við reynum að reyta hvert út úr öðru á þessu stigi málsins nákvæmlega afstöðu til þess hvaða einstakar breytingar koma til greina. Ég ætla ekki að blanda mér í það sem sjávarútvegsráðherra og flytjandi málsins vegna þess að málið er í höndum og á forræði atvinnuveganefndar.