140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

bann við innflutningi á hráu kjöti.

[11:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að ESA skoðar nú innleiðingu Íslands á matvælatilskipuninni og það kemur svo sem ekki á óvart. Við skulum minnast þess að þegar fyrra frumvarpið kom fram sem átti að innleiða hana var ekki gert ráð fyrir því að þar yrði innflutningsbann á hráu kjöti. Það sætti hins vegar harðri andstöðu hér á þingi og við, þingmenn Vinstri grænna, vorum í þeim hópi sem lagðist hart gegn því. Við vildum að sett yrði inn í innleiðinguna að við leyfðum ekki innflutning á hráu kjöti, hvað og síðan varð, og þannig var gengið frá málinu.

Það hefur allan tímann legið fyrir að þessi aðferð okkar við innleiðinguna kynni að verða umdeild og að henni kynni að verða sótt. Málið er ekki komið á það stig að um formleg bréfaskipti sé að ræða. Ekki hefur borist rökstutt álit eða annað í þeim dúr heldur hafa verið skoðanaskipti uppi um þetta mál og fram undan er fundur þar sem farið verður yfir málið. Við undirbúum að sjálfsögðu málsvarnir okkar og röksemdir og munum berjast með kjafti og klóm fyrir því að við getum viðhaldið þeirri aðferð við innleiðinguna sem við völdum þarna. Við teljum okkur hafa sterk fagleg rök fyrir því að það sé mikilvægt fyrir Ísland að geta viðhaft innflutningsbann á hráu kjöti. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki margar þeirra röksemda sem við höfum notað í þeim efnum en við styrkjum þær varnir meðal annars með því að draga saman frekari gögn. Það hefur sérstakur starfshópur gert sem unnið hefur að því máli og mun gera áfram og eins hafa helstu sérfræðingar okkar á sviði dýra-, heilbrigðis- og hollustusjónarmiða lagt þar sitt af mörkum og munu gera það áfram. Komi til þess að ESA haldi lengra áfram með málið vil ég trúa því að við verðum vel undirbúin til að halda uppi vörnum okkar.