140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í gær gerðist það undir störfum þingsins að opinber fræðimaður ...

(Forseti (ÁRJ): Forseti hefur stjórn á þinginu og spyr: Er þetta um fundarstjórn forseta í dag?)

Já, nákvæmlega. Í dag og í gær. Samhengið er það að í dag gerðist það sem gerðist líka í gær að vegið var að heiðri fjarstaddra fræðimanna í ræðustól á Alþingi. Í gær var fræðimaður kallaður áróðursmeistari Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar, í dag er borin fram opinber fyrirspurn sem vegur að heiðri fjarstadds fræðimanns.

Alþingi Íslendinga hefur stundum verið kallað vagga lýðræðisins. Forsendur lýðræðisins eru skoðanafrelsi og málfrelsi og það er ólíðandi, finnst mér, að þessi ræðustóll skuli notaður í því skyni að grafa undan skoðanafrelsi manna og sjálfstæði þeirra sem fræðimanna til að setja fram opinberar skoðanir og látið að því liggja (Forseti hringir.) að þeir gangi annarra erinda en hins fræðilega sjálfstæðis. Í þingsköpum er (Forseti hringir.) bannað að dylgja um þingmenn og einstaklinga. Ég spyr: Á hvaða leið er Alþingi þegar umræðan fær að viðgangast með þessum hætti?