140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Í gær barst fulltrúum í forsætisnefnd erindi frá Björgu Evu Erlendsdóttur, fyrrverandi fulltrúa í verkefnisstjórn rammaáætlunar, þar sem hún vísar til orða hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar í þessum ræðustól um hana þar sem hann nafngreindi hana og sagði, með leyfi forseta, þegar hún tók við starfi við rammaáætlun af öðrum manni:

„Ég þekki hana reyndar ágætlega og hún er hin vænsta manneskja en hefur ekki endilega haft það orð á sér að vera sérstakur fagmaður í umhverfismálum. Hún hefur vissulega gríðarlegan áhuga á umhverfismálum og hefur haft verulega sterkar skoðanir — að minnsta kosti mundu sumir kalla það öfgaskoðanir í umhverfismálum. Þarna er augljóslega verið að setja inn pólitískan liðsmann til að greiða atkvæði á endasprettinum …“

Þessi kona bendir á að samkvæmt þingsköpum megi ekki brigsla ráðherrum, öðrum þingmönnum eða forseta Íslands úr ræðustól en þeir geti þó, (Forseti hringir.) nema kannski forsetinn, yfirleitt svarað fyrir sig á sama vettvangi. En síðan segir í bréfinu, með leyfi forseta: (Forseti hringir.)

„Það getum við óbreytt úti í bæ hins vegar ekki og sitjum því varnarlítil undir dylgjunum. Óþolandi er (Forseti hringir.) að þingmaður leyfi sér að lýsa nafngreindu fólki, tilgangi þess og gjörðum í trúnaðarstörfum án þess að fara rétt með staðreyndir.“

Þessi einstaklingur hefur óskað eftir liðsinni forseta (Forseti hringir.) til að biðja hv. þingmann um að biðjast afsökunar, og nú bið (Forseti hringir.) ég hv. þingmann um að gera það á þessum vettvangi og ljúka (Forseti hringir.) þessu andstyggðarmáli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)