140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Nú tíðkast hin breiðu spjótin hér á þingi. Í atvinnuveganefnd í síðustu viku komu umsagnaraðilar fyrir nefndina og þá spurði ítrekað einn af þeim hv. þingmönnum sem hér talaði og hefur galað hæst um dylgjur: Hver greiddi þér fyrir þessa skýrslu? Er fræðimannsskýrsla þín nokkurs virði þar sem þú fékkst greiðslu fyrir hana? Ég held að við verðum að setja umræðuna á hærra plan ef við eigum að láta hana skila einhverju.

Varðandi það bréf sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var svo smekkleg að lesa upp úr áður, en um það er fjallað í forsætisnefnd, verð ég að segja, frú forseti, og biðja um að forseti taki það til umræðu: Ég er meira en tilbúinn að fjalla um það mál hér og hefði gert það að eigin frumkvæði. Ég tel að ég hafi hvergi lýst því (Forseti hringir.) að viðkomandi persóna væri öfgamanneskja. Ég benti á að skoðanir sumra segðu að svo væri en ég teldi manneskjuna hina mætustu og get ítrekað það (Forseti hringir.) úr þessum fundarstól [ Kliður í þingsal. ] eins oft og hv. þingmaður vill.