140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Mér þykir miður að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson notaði ekki þetta ágæta tækifæri til að biðjast afsökunar á ósmekklegum dylgjum og rætnum aðdróttunum sem var að finna í orðum hans í ræðustól Alþingis um persónu sem hann nafngreindi sjálfur. Þar segir, svo ég endurtaki það, hæstv. forseti, og það er ekkert úr bréfinu, (Gripið fram í.) það er úr ræðu hv. þingmanns í þessum stól og er að finna á vef Alþingis. Á vef Alþingis segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þarna er augljóslega verið að setja inn pólitískan liðsmann til að greiða atkvæði á endasprettinum … “

Þetta er bein fullyrðing hv. þingmanns. Dylgjurnar eru svo í öllum hinum setningunum sem ég las upp áðan. Ég verð að segja alveg eins og er, frú forseti, að þegar menn eru þingmenn og njóta tiltekinnar friðhelgi (Forseti hringir.) hér í stólnum eiga þeir ekki að nota hana til að ráðast á fólk úti í bæ.