140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er ekki gott þegar verið er að dylgja um einstaklinga eða hóp einstaklinga þótt þeir séu ekki nafngreindir og mér finnst margir stjórnarliðar vera að kasta steini úr glerhúsi í þessari umræðu.

Ég vil minna á það hvernig þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, og það á kannski ekki síst við hæstv. forsætisráðherra sem hér stendur, hafa misnotað aðstöðu sína og um hvern hefur verið dylgjað. Við skulum fara aðeins yfir orðfærið: Íhaldsöfl, forréttindastéttir, valdaklíka íhaldsafla og sægreifa, [ Hlátur í þingsal. ] hagsmunagæsluöfl, gíslataka, grímulaus valdaklíka, óskammfeilnar þvingunaraðgerðir.

Já, nú hlæja hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna sem hér sitja. Þetta finnst þeim allt í lagi. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki dylgjur í garð þeirra sem hér um ræðir. Þetta eru ekki dylgjur að þeirra mati. Þetta er sjálfsagður málflutningur sem stundaður er af þessum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum ítrekað og svo koma þeir (Forseti hringir.) þegar málið snýr að þeim sjálfum (Forseti hringir.) og kasta steinum úr glerhúsi.