140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:30]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu vék ég nokkuð að stöðu Seðlabankans annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar. Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að greina og ræða frekar þennan þátt málsins. Ég held að í ljósi nýliðinnar sögu sé ástæða fyrir okkur Íslendinga að vanda okkur mjög hvað varðar fjármálamarkaði, fjármálastöðugleika og annað slíkt. Algengustu mistök sem menn gera varðandi hernað er að skipuleggja nýliðið stríð. Fjármálakerfi okkar Íslendinga er veikburða og ástæða er til að fylgjast mjög vel með því. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að ef út af ber geta íslensku bankarnir staðið veikt og þarf ekki mikið til að koma. Þess vegna er nauðsynlegt að það fyrirkomulag sem við höfum með eftirliti á starfsemi bankanna sé öflugt og til þess fallið að sinna hlutverki sínu.

Herra forseti. Í þeim plöggum sem fylgja þingsályktunartillögunni, þ.e. athugasemdunum, segir eftirfarandi um fjármála- og efnahagsráðuneyti og tilurð þess. Ég ætla að vitna í það, með leyfi forseta:

„Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2009 þegar ábyrgð á efnahagsmálum var færð til ráðuneytisins.“ — Svo kemur það sem skiptir máli: — „Markmiðið með sameiningu efnahags- og viðskiptamála var fyrst og fremst að samræma almenna hagstjórn og málefni fjármálamarkaðar.“

Tilgangurinn með því fyrirkomulagi sem sett var á laggirnar árið 2009 var að samræma almenna hagstjórn og málefni fjármálamarkaðar. Í því fyrirkomulagi sem hér er verið að setja upp liggur fyrir að hagstjórnin almennt, stjórn peningamála og ríkisfjármála, mun verða á hendi fjármála- og efnahagsráðherra, en Fjármálaeftirlitið á að setja í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Rökin sem voru færð fram árið 2009, sem ég tel að hafi haft verulegan þunga að baki sér um nauðsyn þess að eftirlit með fjármálamarkaði og hagstjórn væri nátengt innan stjórnkerfisins, eru farin fyrir lítið vegna þess að nú á að setja þetta hvort í sitt ráðuneytið.

Ég vil ítreka þá skoðun mína, herra forseti, að það eru rök fyrir því að sá sem fer með hlutverkið lánveitandi til þrautavara, Seðlabanki Íslands, hafi á hverjum tíma sjálfstætt mat á eignasafni bankanna og útlánum þeirra til að geta lagt mat á það hvort veita eigi bankastofnun sem lendir í vandamálum þrautalán til að bregðast við lausafjárkrísu. Það á ekki að gera, það á ekki að veita bankastofnun slíka fyrirgreiðslu nema eignasafnið sé nægilega sterkt til að reksturinn geti haldið áfram.

Herra forseti. Það er þannig að ákvarðanir um þessa hluti, um lánveitingu til þrautavara, hafa ekki langan aðdraganda. Þar má til dæmis nefna hina víðfrægu, margnefndu Glitnishelgi, þar sem tekin var ákvörðun um aðkomu að bankastofnun með skömmum fyrirvara. Ég vara við því, herra forseti, að lagt verði of mikið traust á það að mönnum takist að byggja upp einhvers konar samskiptaferla á milli ólíkra stofnana. Þá mun reyna mjög á allt lagaumhverfi varðandi flæði á upplýsingum, en ekki síður á það að tilhneiging er hjá stofnununum að vinna fyrst og síðast þá vinnu sem gagnast viðkomandi stofnun og gera minna með það sem menn telja að gagnist einungis öðrum stofnunum þótt innan sama geira sé verið að starfa. Þetta er margþekkt og ekki bara íslenskt fyrirbæri heldur þekkt út um alla veröld.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég hef áhyggjur af því fyrirkomulagi sem verið er að setja hér upp varðandi fjármálamarkaðinn.

Ég tel einnig að ástæða sé til að benda á að í meðförum þessa máls í þinginu hafa umsagnir vissulega komið til nefndar um breytt fyrirkomulag atvinnuvegaráðuneytisins, um umhverfisráðuneytið o.s.frv. En það er látið duga að fengið sé álit starfshóps um hið nýja fjármála- og efnahagsráðuneyti og verkefni þess. Eins liggur fyrir umsögn eða álit öllu heldur frá fyrrverandi stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins um þá spurningu hvort seðlabankar eigi að fara með fjármálaeftirlit eða Fjármálaeftirlitið sjálft.

Ég tel, virðulegi forseti, að eðlilegt hefði verið og reyndar nauðsynlegt að kallað hefði verið eftir umsögnum frá þeim sem til þessara mála þekkja, til stjórnar efnahagsmála og þess fyrirkomulags og þess stofnanastrúktúrs sem við þurfum að byggja upp, nefndin hefði fengið slíkar umsagnir og við þingmenn hefðum þá haft tækifæri til að kynna okkur þær umsagnir.

Það er ekki góður bragur á því, virðulegi forseti, að framkvæmdarvaldið velji sér álitsgjafa, starfshóp — sem í sitja reyndar ágætir menn, þeir Gylfi Magnússon, Sigurður H. Helgason og Sigurður Snævarr, allt vel hæfir einstaklingar, en það fer ekki vel á því að framkvæmdarvaldið velji sérstaklega þá einstaklinga, sama hversu hæfir þeir eru, sama hver þekking þeirra á sviðinu er, til að gefa álit, búa til álit en kalla ekki eftir áliti annarra. Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að það eru fjölmargir aðrir aðilar í okkar samfélagi, blessunarlega, sem hafa mikla þekkingu og vit á þessum málum.

Þetta ráðslag grefur undan því trausti sem við þurfum að bera til þess fyrirkomulags sem við erum að ræða hér. Með öðrum orðum, herra forseti, það er erfiðara fyrir okkur alþingismenn að taka afstöðu með eða á móti málinu. Málið er ekki nægjanlega vel búið til umræðu til að Alþingi geti tekið afstöðu til þess hvort við viljum að framkvæmdarvaldið fari fram með breytta skipan í Stjórnarráðinu.

Þess vegna tel ég, herra forseti — reyndar á ég eftir að minnsta kosti eina fimm mínútna ræðu — að það sé ástæða fyrir okkur að forsvarsmenn þingsályktunartillögunnar taki meiri þátt í umræðu um þennan þátt málsins, þ.e. um fjármálamarkaðinn og eftirlitið með fjármálamarkaðnum, hvar það er vistað og hvernig sú starfsemi á að ganga upp innan Stjórnarráðsins.

Því miður, herra forseti, hefur vantað á það að stjórnarliðar og þeir sem eru í forustu fyrir málinu taki virkan þátt í þeirri umræðu. Ég vek athygli á því að í þingsalnum núna er enginn. Það er enginn sem situr hér inni (Forseti hringir.) frá stjórnarliðinu, hér inni sitja einungis þingmenn stjórnarandstöðunnar (Gripið fram í: Og herra forseti.) og virðulegur forseti sem reyndar er skyldubundinn til slíkrar setu.