140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf ánægjulegt að hlusta á hv. þm. Illuga Gunnarsson. Hann er yfirleitt mjög málefnalegur og faglegur í því sem hann ræðir um. Ég held að megi samt sem áður segja hvað þessa ræðu varðar, svona til að taka hana saman, að hann hafi þar tekið undir nánast allar athugasemdir sem komu fram í máli fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Páls Árnasonar, hv. þingmanns, til að stytta kannski aðeins þá ræðu sem hann fór hér í gegnum og taka megininntakið.

Það sem ég hefði áhuga á að heyra á grundvelli þess að ég veit hvernig hv. þingmaður nálgast málin, ég held að það væri mjög áhugavert fyrir mig bara sem þingmann að fá að heyra það frá þingmanninum: Hvað mundi hann vilja gera ef og þegar hans flokkur kemst aftur til valda hvað varðar lögin um Stjórnarráðið? Mundi þingmaðurinn vilja breyta lögunum aftur í það form sem þau voru áður, þannig að það þyrfti þá að fara í gegnum fleiri umræður hér í þinginu og raunar leggja fram frumvarp um breytingar á fyrirkomulagi ráðuneyta? Eða er þingmaðurinn sammála túlkun til dæmis hæstv. forsætisráðherra um að þetta sé vald sem eigi fyrst og fremst að vera í höndum ráðherra framkvæmdarvaldsins, hvernig skipa á málum innan Stjórnarráðsins?