140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hlýleg orð í minn garð.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að ekki er langt á milli þeirra skoðunar sem ég hef lýst og þeirra skoðana sem hæstv. fyrrverandi efnahagsráðherra hefur lýst í ræðustól þingsins. Þetta er mjög mikilvægt mál. Það er enn og aftur ástæða til að ræða þennan þátt málsins miklu dýpra vegna þess meðal annars að ekki komu umsagnir inn um þennan þátt málsins nema sú álitsgerð sem ég vitnaði til og benti á. Ég ætla ekki að gera lítið úr skoðunum þeirra ágætu manna sem þar lögðu fram vinnu sína, en ég hefði viljað fá álit frá fleirum, úr fleiri áttum, sem hefði gert það að verkum að við hefðum getað átt merkingarbærari umræðu en raun ber vitni.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um það fyrirkomulag sem við erum búin að koma okkur upp í þinginu, þá vil ég benda á að fram á 7. áratuginn, ef ég man rétt, var það fyrirkomulag hér með sama hætti og í Danmörku, að það var á valdi framkvæmdarvaldsins hvernig verkefnum var háttað innan Stjórnarráðsins, skipan ráðuneyta og verkaskipting þeirra. Niðurstaðan sem menn komust að var að þetta væri of losaralegt og má kannski segja að það hafi eitthvað að gera með okkar stjórnmálakúltúr, vegna þess að þetta fyrirkomulag í Danmörku hefur gengið mjög vel eftir því sem ég best veit. Ég fór reyndar fyrir nokkrum árum gagngert til Danmerkur til að kynna mér akkúrat þennan þátt málsins þegar ég starfaði sem aðstoðarmaður forsætisráðherra. Ég taldi að rök hafi verið fyrir því að við værum komin með kerfi sem væri of svifaseint, þ.e. það væri of erfitt að bregðast við breytingum í samfélaginu, þannig að það endurspeglaðist í störfum Stjórnarráðsins.

Þarna þarf að fara og feta ákveðinn milliveg. Þess vegna er ég í sjálfu sér ekki ósáttur við það fyrirkomulag, ég tel það að minnsta kosti einnar messu virði að skoða það, sem við höfum sett núna, að þetta sé flutt inn í þingið í formi þingsályktunartillögu. (Forseti hringir.) En sú þingsályktunartillaga þarf að vera mjög vönduð og breytingarnar þurfa að vera útfærðar þannig að Alþingi geti tekið afstöðu til þeirra.