140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að ekki er nægilega vel að verki staðið. Vissulega hvílir ekki sú skylda á fjármálaráðuneytinu að veita umsögn um kostnað út af þingsályktunartillögum en í þessu máli má ljóst vera að það þarf að fylgja því tiltölulega nákvæmt kostnaðarmat þannig að Alþingi geti gert sér grein fyrir því um hvaða stærðir er að tefla.

Þá kem ég aftur að því sem ég var að segja áðan. Það fyrirkomulag sem við erum að koma okkur upp hér og erum að keyra núna í fyrsta sinn, þ.e. að framkvæmdarvaldið komi til þingsins og leggi fram þingsályktunartillögu um skipan verkefna Stjórnarráðsins, hefði að mínu mati þurft að vera vandaðra. Ég tel, herra forseti, að það hefði verið skynsamlegt og yfirvegað af hálfu núverandi ríkisstjórnar að neita sér um þetta að þessu sinni, af því við erum komin undir lok kjörtímabilsins, og gefa heldur næstu ríkisstjórn færi á því að undirbyggja slíkar breytingar af kostgæfni og leggja fram vandaðar, útfærðar tillögur um þessa hluti, þar á meðal mundi fylgja slíkum tillögum eins og kostur er, að sjálfsögðu, mat á þeim kostnaði sem félli á ríkissjóð vegna slíkra breytinga.

Hvað varðar þann þátt sem snýr að stjórnarskránni eiga menn að varast hefðir þegar kemur að því að túlka saman hefðir annars vegar og orð stjórnarskrárinnar hins vegar, en þannig hefur það verið í íslenskri stjórnsýslu að skapast hafa útgjöld hjá ríkinu sem síðan hafa verið afgreidd í þinginu í formi fjáraukalaga. Það er vissulega umhugsunarvert (Forseti hringir.) fyrir okkur þingmenn hvort það fyrirkomulag í núverandi mynd geti staðist til lengdar.