140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu mati eiga fjáraukalög að vera algjör undantekning í ríkisútgjöldum að því leyti að þau feli í sér ófyrirsjáanleg útgjöld frá því að fjárlög ársins voru sett. Núverandi ríkisstjórn fer með fjáraukalög eins og meginreglu fjárlaga. Það finnst mér athyglisvert og gagnrýnisvert, sérstaklega í ljósi þess að hér á landi er mikill vilji til að breyta vinnubrögðum eftir það sem þjóðin lenti í á haustdögum 2008.

Varðandi það að fjármálaráðuneytinu sé ekki skylt að gera kostnaðaráætlanir fyrir þingsályktunartillögur tel ég að í veigameiri málum eins og því sem nú liggur fyrir þinginu, þar sem verið er að sameina ráðuneyti og markmiðið með því, eins og kemur fram, er ekki í hagræðingarskyni, þá hljóti fjármálaráðuneytið að bera þá skyldu að gera kostnaðaráætlun. Ef fjármálaráðuneytið gerir hana ekki þá sýnir það hina brýnu þörf á (Forseti hringir.) að við þingið verði komið upp lagaskrifstofu auk hagfræðideildar þannig að við þingmenn getum lagt sjálfstætt (Forseti hringir.) mat á það og fengið stofnunina til að hjálpa okkur að (Forseti hringir.) átta okkur á því hvursu mikil útgjöldin verða.