140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Ég deili að mörgu leyti áhyggjum hans af þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir, sérstaklega varðandi þau mál er snúa að nýtingu auðlinda okkar og gagnvart umhverfisráðuneytinu sem á að sameina bæði nýtingu og umhverfisvernd.

Þingmaðurinn hefur alltaf talað mjög fyrir atvinnumálum hér á landi. Hann lýsti hér áhyggjum sem hann hefði af atvinnumálunum í þessu nýja skipulagi, hvar stofnanir yrðu vistaðar og hvert verkefnin mundu fara. En ég vil bara lýsa því yfir, herra forseti, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur aldrei haft áhyggjur af atvinnumálum, Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur að hér þurfi ekki að vera atvinna til að halda uppi lífskjörum. Að minnsta kosti kemur það glögglega í ljós í rammaáætluninni sem þessi flokkur hefur augljóslega haft mjög mikil áhrif á. Það er á stefnuskrá Vinstri grænna að hlífa til dæmis neðri hluta Þjórsár, sem er þó hagkvæmasti virkjunarkosturinn nú um stundir, og færa það í biðflokk. Þetta er eitthvað sem Samfylkingin lætur yfir sig ganga til að halda Evrópusambandsumsókninni inni og gangandi að Vinstri grænir fái að stöðva allar framkvæmdir og stoppa allt atvinnulíf til þess að límið haldist í ríkisstjórninni.

Þingmaðurinn fór yfir akkúrat þá spurningu sem við ræddum lítillega í nótt, hvað verði til dæmis um hvalveiðar í þessum tillögum. Við Íslendingar lítum á hvalveiðar og hvali sem náttúruauðlind á meðan Evrópusambandið lítur á hvali sem umhverfismál. Hefur þingmaðurinn tilfinningu (Forseti hringir.) fyrir því hvernig verði farið með þá náttúruauðlind sem hvalirnir eru okkur Íslendingum í (Forseti hringir.) auðlinda- og umhverfisráðuneyti eða fer hún nn í nýtt atvinnuvegaráðuneyti?