140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við erum sammála um að annar stjórnarflokkurinn er ekki áfram um að byggja upp atvinnulíf á hinum almenna vinnumarkaði og þegar sviðið er skoðað er Samfylkingin ekki mjög hrifin af því heldur vegna þess að hún lætur það yfir sig ganga að hér sé allt að keyra í stopp. Samtök atvinnulífsins bera sig mjög illa. Hér eru endalausar skattahækkanir og mikill órói og óvissa hefur skapast í þessum atvinnugreinum undir forustu núverandi ríkisstjórnar, og það sem helst háir Íslandi nú um stundir gagnvart erlendri fjárfestingu er óstöðugt stjórnmálaástand.

Þegar ég var að læra hagfræði í gamla daga og læra um líkan Porters var talað um að þau ríki sem svo væri statt um væru aðallega austantjaldsríkin og það var jafnvel vísað í Kóreu. Nú eru að rætast þau orð hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar, að við erum komin í Kóreu-ástand undir þessari ríkisstjórn vegna þess að hér ríkir svo mikill stjórnmálaóróleiki og ekki eru sköpuð skilyrði til þess að hægt sé að byggja upp atvinnurekstur. En það er svo sem ekki nýtt að kratískir vinstri flokkar láti opinbera geirann þenjast út. Þeir sækja jú fyrst og fremst fylgi sitt inn í opinbera geirann. Því til staðfestingar má til dæmis minnast á borgarstjórann í New York sem fjölgaði svo borgarstarfsmönnum til að viðhalda sjálfum sér í pólitík vegna þess að þá kusu alltaf þessir borgarstarfsmenn hann í nýjum kosningum. Þetta er farið að minna mann óþyrmilega mikið á það hér á landi hvað þessi vinstri kratastjórn (Forseti hringir.) stækkar og þenur út opinbera geirann til þess eins að ná kjöri í næstu kosningum og koma ESB-umsókninni áfram.