140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ef við höldum aðeins áfram með þetta mál og gefum okkur að niðurstaðan verði sú að þessi þingsályktunartillaga fari í gegn og menn dreifi ábyrgð á einstökum stofnunum á milli ráðuneyta eftir línum sem við höfum þó óljósa hugmynd um. Við höfum ekki fengið nægilega góða greiningu á því hvar ákveðnar stofnanir eiga að vera en til að mynda hefur verið rætt um að ákveðnir þættir í starfsemi Hafrannsóknastofnunar heyri undir umhverfisráðuneytið þó svo stofnunin muni hugsanlega heyra undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis var stjórnsýslan harðlega gagnrýnd, meðal annars fyrir það að ekki væri augljóst hver bæri ábyrgð á hverju. Af því að hér er líka verið að fjalla um Fjármálaeftirlitið, þó að við höfum kannski lítið komið inn á það, þá varð það niðurstaða þingmannanefndarinnar sem fjallaði um rannsóknarskýrsluna að nauðsynlegt væri að gera breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Það var hins vegar aldrei talað um að fækka ætti ráðuneytum og hringla með stofnanir. Hins vegar var sagt, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur að gera verði breytingar á lögum og reglum þannig að komið verði í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra. Skarist valdsvið tveggja eða fleiri ráðherra ber þeim með formlegum hætti að hafa samvinnu um þau vinnubrögð sem viðhöfð skulu hverju sinni þannig að ávallt sé ljóst á ábyrgðarsviði hvers þeirra er starfað. Þingmannanefndin ítrekar ábyrgð fagráðherra á eftirliti með störfum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.“

Við höfum séð dæmi þess hjá núverandi ríkisstjórn þegar Varnarmálastofnun var brotin upp og síðan hafa tveir ráðherrar, hæstv. innanríkisráðherra og utanríkisráðherra, sameiginlega ábyrgð á því verksviði. Það er sagt að þetta gengi vel tímabundið. Ef af þessum breytingum yrði óttast hv. þingmaður þá ekki að fjölmargar stofnanir lendi í því (Forseti hringir.) að heyra undir ábyrgðarsvið fleiri en eins ráðherra án þess að það verði skýrt? Og gengur það ekki alveg í berhögg við það sem samþykkt var 63:0 á sínum tíma?