140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili vissulega áhyggjum með hv. þingmanni í þessum efnum. Við horfum á þá togstreitu sem myndast hefur við lokafrágang rammaáætlunar og þeirra tillagna sem koma hingað inn í þingið. Þær endurspegla það sem við getum átt von á verði þessar breytingar að veruleika.

Til dæmis er lagt upp með mjög náið samstarf milli umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis, t.d. varðandi niðurstöður Hafrannsóknastofnunar. Þá fara að togast á sjónarmið verndunar og nýtingar sem við sjáum svo hróplega í rammaáætlun svo að úr verða pólitísk hrossakaup og slík niðurstaða er gríðarlega dýr fyrir íslenskt samfélag. Við höfum ekki efni á leikaraskap af því tagi.

Það er mjög mikilvægt að stofnanir eins og Hafrannsóknastofnun og þær stofnanir sem þjóna atvinnulífinu heyri undir atvinnuvegaráðuneyti. Reyndar hlýtur það að vera til skoðunar hvort ekki eigi að færa fleiri af þessum verkefnum til atvinnulífsins, láta atvinnulífið sjálft sjá um þau. Það getur að stórum hluta átt við um eftirlitsiðnað í landinu og þessa rannsóknarvinnu sem ég tel að atvinnulífið væri að mörgu leyti miklu betur fært um að sinna en ríkið og mundi gera það með miklu hagkvæmari hætti. Við munum öll eftir Bifreiðaeftirliti ríkisins. Ekki var hægt að fara með bíla í skoðun nema ríkið stýrði því (Forseti hringir.) en það hefur gengið vel að breyta því og við getum gert þetta miklu víðar.

Varðandi það að (Forseti hringir.) einungis einn ráðherra sé með málaflokkinn þá minni ég á að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til Kanada um daginn (Forseti hringir.) og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gat á sama tíma ekki mælt fyrir mikilvægustu málunum (Forseti hringir.) í þinginu og varð að fá aðra ráðherra til að koma hingað í sinn stað.