140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér til mikillar ánægju kom þessi spurning hér fram því að það gleður mig að geta upplýst þingheim um vinnubrögð framkvæmdarvaldsins og meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta atriði um aðstoðarráðherrana í ráðuneytin löngu eftir að búið er að sameina ráðuneytin var bara alls ekki til umræðu í nefndinni. Ég sá þetta fyrst í nefndaráliti meiri hlutans að þessi hugmynd væri yfir höfuð upp á borðinu. Þetta sýnir hve málið er vanreifað. Þetta sýnir að það eru að koma fram hugmyndir í þessu illa skipulagða máli sem er varpað fram. Við vitum að það vantar kannski faglega þekkingu að einhverju leyti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en það virðist sem meiri hlutinn hafi ekki gert sér grein fyrir því að með því að setja þetta inn í nefndarálit er það þar með orðið lögskýringargagn og gæti verið notað til túlkunar á lögunum til framtíðar.

Þá komum við að hinni spurningunni um ábyrgðarþáttinn. Það er algjörlega óskýrt gagnvart til dæmis ráðherraábyrgðarlögum hvor ráðherrann eða hverjir, þetta er sett fram í fleirtölu, það gætu kannski verið fleiri en einn aðstoðarráðherra, beri ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru í ráðuneytinu. Samkvæmt venjulegri skýringu mundi ráðherrann sjálfur alltaf bera ábyrgð á gjörðum ráðuneytisins, en segjum sem svo að viðkomandi ráðherra yrði veikur eða þyrfti að fara til útlanda eða eitthvað, þá vaknar að sjálfsögðu ábyrgðin hjá aðstoðarráðherranum, alla vega miðað við þær ákvarðanir sem hann þarf að taka í fjarveru alvöruráðherrans, ekki afleysingaráðherrans. Þetta er náttúrlega bara í takti við allt í þessari þingsályktunartillögu. Þetta er vanhugsað (Forseti hringir.) frá upphafi til enda.