140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

upprunaábyrgð á raforku.

728. mál
[13:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o. fl., með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til minni háttar breytingar á lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði 15. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB, sem snýr að útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þann 19. desember 2011. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar sem innleidd var með lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar sem víða í nýju tilskipuninni er vísað til hinnar eldri tilskipunar þarf að breyta ákvæðum laganna og vísa til nýju tilskipunarinnar.

Efnislega er ekki munur á þessum tveimur tilskipunum hvað varðar ákvæði um upprunaábyrgðir á raforku. Innleiðing 15. gr. tilskipunarinnar 2009/28/EB er því ekki talin kalla á frekari breytingar á lögum nr. 30/2008.

Frumvarpið felur því í sér að lagt er til að lögum nr. 30/2008 verði breytt þannig að vísað sé til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB í stað tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB. Að auki er um tvær minni háttar orðalagsbreytingar að ræða í frumvarpinu.

Verði frumvarpið að lögum er Landsneti hf. heimilt, á grundvelli laganna, að gefa út upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er hér á landi með endurnýjanlegum orkugjöfum með vísan til hinnar nýju tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB. Þar sem hin nýja tilskipun hefur öðlast gildi á Evrópska efnahagssvæðinu gera þeir erlendu aðilar sem hafa hug á að kaupa slíkar upprunaábyrgðir á Íslandi kröfu um að upprunaábyrgðin sé í samræmi við ákvæði hinnar nýju tilskipunar og gefin út með vísan til hennar.

Upprunaábyrgðir á raforku eru oft kallaðar „græn vottorð“. Þær gefa þeim sem framleiða raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum færi á að selja slík vottorð vegna raforkuframleiðslunnar. Kaupendur vottorða eru þeir sem sjá hag sinn í því að styðja við framleiðslu á grænni raforku og sem vilja líka sýna fram á í bókhaldi sínu að hlutfall endurnýjanlegrar raforku af orkukostnaði þeirra sé sem því nemur hærra.

Ýmis fyrirtæki sem vilja tileinka sér græna ímynd styðja við framleiðslu á endurnýjanlegri orku með því að kaupa sér græn vottorð. Þessi markaður er til staðar og virkur innan ESB. Því er um að ræða fjárhagslegan hvata til handa framleiðendum umhverfisvænnar raforku með því að opna leiðir til að stunda viðskipti með upprunaábyrgðir.

Verði frumvarpið að lögum verður Ísland virkur þátttakandi á markaði meðal annarra Evrópulanda með upprunaábyrgðir. Mikil tækifæri eru til að afla frekari tekna vegna þeirrar endurnýjanlegu orku sem Ísland býr yfir þar sem íslenskir orkuframleiðendur geta þá selt græna hluta framleiðslu sinnar sem upprunaábyrgðir til annarra Evrópulanda. Mikil eftirspurn er til staðar og má nefna að Landsvirkjun er með í undirbúningi að hefja slík viðskipti. Skilyrði þess er að frumvarp þetta verði að lögum. Því er ljóst að um tekjutækifæri er að ræða, bæði fyrir íslensk orkufyrirtæki og íslenska ríkið. Meðalverð á upprunaábyrgðum í Evrópu árið 2011 var um 0,37 evrur á megavattstund. Fyrir eina teravattstund mundu því fást um 60 millj. kr. á ári.

Því er spáð að verð á upprunaábyrgðum fari hækkandi á næstunni samhliða aukinni eftirspurn. Í þessu samhengi má nefna að heildarraforkuframleiðsla á Íslandi er um 17 teravattstundir. Litið hefur verið svo á að tekjur sem falla til við sölu á upprunaábyrgðum raforku muni skiptast á milli orkuframleiðenda og íslenska ríkisins og er innan iðnaðarráðuneytisins unnið að nánara fyrirkomulagi á slíkri skiptingu.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Landsnet hf., Samorku og Orkustofnun.

Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á starfsemi Landsnets hf. við útgáfu upprunaábyrgða, en jafnframt opna leið fyrir íslenska raforkuframleiðendur til að markaðssetja upprunavottorð á hinu Evrópska efnahagssvæði með tilvísun til hinnar nýju tilskipunar 2009/28/EB. Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.