140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

upprunaábyrgð á raforku.

728. mál
[13:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér vera nokkuð áhugavert mál en vekur samt fáeinar spurningar sem ég átta mig ekki alveg á hver svörin eru við þegar ég fer yfir málið, ég nam það heldur ekki af ræðu hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi er ljóst að hér er í raun ekki um efnisbreytingu að ræða. Eingöngu er verið að fara fram með þetta frumvarp vegna þess að sú tilskipun frá Evrópusambandinu sem núgildandi lög byggjast á er fallin úr gildi og ný tilskipun hefur komið í staðinn og tilvísanir þurfa að vera réttar. Við þekkjum þetta auðvitað í gegnum tíðina. Þetta er aukaatriði.

Með þessu er verið að tryggja að áfram verði hægt að gefa út upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er hér á landi með endurnýjanlegum orkugjöfum, með tilvísun til þessara nýju tilskipana.

Það sem ég átta mig ekki alveg á í þessu sambandi er hver praxísinn er í þessu. Hvað er það sem við erum í raun og veru að ná utan um? Er um að ræða að einhverjir aðilar sem starfa hér á landi séu áhugasamir um eða telja sig þurfa á því að halda að geta sýnt fram á að framleiðsla þeirra sé framleidd með orkugjöfum sem sannarlega eru endurnýjanlegir? Er verið að vísa til þess? Til dæmis frystihús sem leggur áherslu á að vinna úr sjálfbærum veiðistofnum og vill jafnframt segja að þeir skilji ekki eftir sig kolefnisfótspor. Eru það slíkir aðilar sem mundu kaupa þessi upprunavottorð? Eða til dæmis álverin okkar eða einhver önnur fyrirtæki? Ég átta mig ekki alveg á þessu. Eða er verið að vísa til þess að mögulegir kaupendur handan við hafið að okkar raforku séu að kalla á slíkt?

Ég er að velta upp hvort hér sé kannski um að ræða anga af stærra máli. Við höfum heyrt upp á síðkastið vangaveltur um að mögulega verði farið að selja raforku um sæstreng til erlendra aðila. Sú umræðu er hafin og það er heilmikil umræða sem þarf að taka. Ég ætla mér ekki að slá neina efnislega dóma hér, enda ekki tilefni til við þessa umræðu. Ég er bara að velta fyrir mér, og vildi gjarnan heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra, hvort þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir sé ætlað að búa í haginn fyrir það, ef við förum út í að leggja sæstreng, að við getum vísað til þess að orka okkar sé endurnýjanleg.

Ég fagna því út af fyrir sig að við séum að gera þetta vegna þess að við erum að staðfesta að þeir orkugjafar sem við notum, rafmagnið og heita vatnið, sé endurnýjanlegir. Á það hafa hins vegar verið bornar mjög miklar brigður í umræðunni um rammaáætlun. Margir hafa haldið fram að þetta séu ekkert endurnýjanlegir orkugjafar og við séum bara orkusóðar með því að reyna að nýta þessar orkuauðlindir. Það hefur til dæmis komið fram í málflutningi ýmissa fulltrúa úr stjórnarflokkunum.

Stóra málið er spurning mín til hæstv. ráðherra, svo ég átti mig á þessu máli: Erum við að vísa til innlendra kaupenda, innlendra notenda raforku, fyrirtækja eins og ég nefndi dæmi um, eða erum við með þessu að stíga eitt skref í þá átt að greiða því leið, eða að minnsta kosti að möguleikarnir séu til staðar svo við tökum ekki dýpra í árinni, fyrir því að selja orku til útlanda með sæstreng?