140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Almennt er hægt að segja að þær tillögur sem hér eru gerðar hafi að markmiði að þrengja sem minnst að Íbúðalánasjóði þrátt fyrir allt, þ.e. við erum að reyna að halda Íbúðalánasjóði og gerum eins litlar breytingar og hægt er til að uppfylla þó þessar samkeppnisreglur. Það var meginmarkmiðið með þeirri vinnu sem átti sér stað. Við teljum að Íbúðalánasjóður hafi mjög mikilvægt hlutverk í augnablikinu.

Þarna eru þó settar reglur, sem ég held að hafi verið óhjákvæmilegar, um 80 prósentin og líka að eitthvert hámark væri á því hvar Íbúðalánasjóður lánaði. Stærstu töp Íbúðalánasjóðs eftir hrun eru hjá almennum félögum sem hafa fengið leyfi til að byggja leiguíbúðir, hafa síðan selt sig út úr kerfunum og farið illilega á höfuðið. Stórar upphæðir hafa fallið á Íbúðalánasjóð vegna þessa.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er full ástæða til að vera með almenn lög um rétt neytenda, lánstíma og annað slíkt. Það heyrir undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið að setja slík lög. Það hefur svo sem verið rætt, sérstaklega út af óverðtryggðu lánunum sem eru að koma inn núna. Þar er ósamræmi vegna þess að sumar lánastofnanir bjóða bara fimm til sjö ára lán. Menn hafa áhyggjur af því hvort þá sé búið að tryggja fjármögnun áfram þannig að menn geti haldið áfram án þess að lenda í verulega háum vaxtagjöldum þegar endurskoðunin á sér stað.

Ég held að það sé sjálfstætt mál sem við þurfum að ræða og full ástæða til að fylgja því eftir. Þetta mál skemmir varla á nokkurn hátt fyrir þeim hluta.