140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:12]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið er: Já, það er minn skilningur. Það er full ástæða til að fara vel yfir þetta í nefndinni og skoða það þannig að ekkert fari á milli mála. Í 12. gr. sem hér er spurt um er talað um að 33. gr. laganna orðist þannig:

„Íbúðalánasjóði er heimilt að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis, lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða.“

Það sem þarna er lögð áhersla á er fyrst og fremst þetta með langtímasjónarmiðin, að núna höfum við tækifæri til að koma með betra framboð af leiguhúsnæði. Það er þó algjör forsenda til að það form geti fest sig í sessi í landinu að okkur takist að tryggja að menn sem byggðu húsin selji ekki ofan af fólki og breyti húsnæðinu í eignarhúsnæði. Þetta gerðist fyrir hrun og mörg ljót dæmi eru um það. Þarna er verið að tala um langtímasjónarmið. Ég treysti á að Búseti sé að sjálfsögðu með það sama sjónarmið og sé fyrst og fremst rekið þannig að ágóðinn af því fari inn í félagið til að viðhalda því og hið sama á við um húsnæðissamvinnufélög. Svar mitt við þessu er: Já, en það er sjálfsagt að velferðarnefnd fari vel yfir það að orðalagið sé nógu skýrt til að tryggja það.