140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða málið mjög vandlega við stofnun þessa leigufélags, og auðvitað hv. nefnd líka, vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að gæta að þeim kostnaði sem felst í því að Íbúðalánasjóður eigi íbúðir sem standa auðar. Sums staðar er sannarlega hægt að leigja þær og er þörf fyrir þær, og það mikil. Það stendur jafnvel atvinnulífinu fyrir þrifum að geta ekki fengið fólk til vinnu vegna þess að það vantar íbúðarhúsnæði. Þá er mjög mikilvægt að á þennan hnút verði hoggið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vinna þetta í sátt og samvinnu við Samkeppniseftirlitið til þess að hafa ekki nein grá svæði. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í andsvari sínu, og við vitum báðir tveir, er mjög víða sveitarfélagið eini aðilinn sem leigir húsnæði, enginn annar aðili er á leigumarkaðnum. Þegar sjálft sveitarfélagið er jafnvel að leita eftir íbúðum á leigu hjá Íbúðalánasjóði, eins og er í mörgum tilfellum, ætti það ekki að skarast. Ég geri mér hins vegar alveg fulla grein fyrir því að það er mjög mikilvægt að þetta muni ekki koma einhvers staðar annars staðar inn á markaðinn þar sem er klárlega samkeppni og Íbúðalánasjóður fer að greiða niður.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að Samkeppniseftirlitið, ráðuneytið og Íbúðalánasjóður vinni þetta saman. Auðvitað er algjörlega óþolandi og ólíðandi að þar sem er þörf fyrir húsnæði skuli ekki vera hægt að leigja það. Ekki síst er bagalegur allur sá kostnaður sem lendir auðvitað beint á ríkissjóði vegna þess að íbúðirnar standa auðar. Það kostar mikið að kynda þær og halda þeim við.