140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:21]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson séum algjörlega sammála um þessi atriði sem hann nefnir. Verkefni Íbúðalánasjóðs eftir þau áföll sem hann hefur orðið fyrir er að lágmarka tapið. Það er skynsamlegt að reyna að nýta húsnæðið. Samtímis má það þó ekki vera þannig að Íbúðalánasjóður setji inn íbúðir til skammtímaleigu nema í takmörkuðum mæli. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við komumst inn með varanlegan leigumarkað þar sem fólk getur treyst því að það eigi raunverulegt val um hversu lengi það býr í húsnæðinu og að það geti verið til langs tíma.

Það er forsenda þess að hér verði til leigumarkaður. Við höfum búið við það þar sem margir einkaaðilar leigja út húsnæði að síðan kemur einhver úr fjölskyldunni sem vill búa í íbúðinni og þá er leigunni sagt upp og menn hraktir úr húsnæðinu. Menn verða síðan allir að fara í að kaupa húsnæði og við þekkjum umræðuna í kringum það, það er ekki alltaf áfallalaust að fara þá leið.

Íbúðalánasjóður verður auðvitað að vanda sig og vinna þessi verkefni í samræmi við lög, hvort sem það eru samkeppnislög eða önnur. Ég veit að verið er að því. Það er góð ábending og hefur einmitt verið í skoðun að fá hreinlega leiðbeinandi reglur frá Samkeppniseftirlitinu þannig að menn fari ekki inn á markaði þar sem nánast er einokun nema með því að tryggja að það verði í lagi.

Ég held að við deilum þessum skoðunum. Þetta er hluti af því sem vonandi verður rætt í nefndinni við meðferð þessa máls. Við erum að vinna að því á öllum vígstöðvum að tryggja að hér geti orðið góður og öflugur leigumarkaður, m.a. með breyttu húsnæðisbótakerfi í stað vaxta- og húsaleigubóta.