140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér ýmsar breytingar á lögum um Íbúðalánasjóð og um húsnæðismál. Menn þurfa að hafa það á hreinu að við erum að ræða um einn stærsta banka landsins eða fjármálastofnun sem er opinber og nýtur ábyrgða skattgreiðenda. Það hefur heldur betur reynt á hana með gífurlegum fjárframlögum ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs — ég minni þar á 33 milljarða sem var ákveðið á sínum tíma — og það er ekki búið að sjá fyrir endann á því. Hluti af þessu er vegna þess að það var uppgreiðsluheimild á útlánum Íbúðalánasjóðs og hann hafði ekki gætt þess að vera með sambærilega uppgreiðsluheimild á þeim lánveitingum sem hann tók sem að einhverju leyti voru líka bundin í lög. Þetta bjó til þann vanda að þegar vextir lækkuðu eftir að Kaupþing kom inn á markaðinn með 4,15% vexti og oft og tíðum miklu hærra lánshlutfall, greiddu menn upp lán hjá Íbúðalánasjóði og hann sat uppi með óhemjufé sem hann varð að ráðstafa með einhverjum hætti og ráðstafaði því með lægri vöxtum en hann hafði sjálfur tekið að láni. Þetta er vandinn í hnotskurn. Auk þess sem hann fór inn á braut sem ég varaði við í þáverandi félagsmálanefnd að lána leigufélögum, sem báru bara ábyrgð með hlutafé sínu, til kaupa á íbúðum. Þegar verð þeirra íbúða féll urðu leigufélögin gjaldþrota og Íbúðalánasjóður sat í súpunni.

Mjög margt hefur verið að hjá Íbúðalánasjóði og það er eins og gengur með opinber fyrirtæki að þá ber enginn ábyrgð, enginn tapar sínu fé, enginn missir af lífeyrisréttindum o.s.frv. Þetta er kannski það sem mælir gegn því að vera með opinber fyrirtæki yfirleitt, sérstaklega í eins áhættusömum rekstri og lánastarfsemi er.

Hér er verið að gera ýmsar breytingar til að mæta niðurstöðu rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA vegna þess að Íbúðalánasjóður nýtur eigendaábyrgðar. Hann er með vaxtaniðurgreiðslu, hann er með undanþágu frá arðsemiskröfu o.s.frv., allt hlutir sem skekkja myndina og samkeppnina á markaði. Hann er nefnilega starfandi á markaði þar sem ætti að ríkja samkeppni og hér er verið að bregðast við því.

Ég tel að mjög margt í þessu frumvarpi sé til bóta. Ég sé ekki af hverju verið er að breyta alls staðar nafni þess sem stýrir sjóðnum úr framkvæmdastjóra í forstjóra, fyrir mér er það ekki stórmál, en hæfisskilyrði stjórnarmanna og forstjóra eru aukin og það er jákvætt. Ég hefði reyndar talið að sambærileg hæfisskilyrði ættu að vera hjá stjórnarmönnum og forstjórum lífeyrissjóða, sem og víðar. Það ætti að búa til stöðluð hæfisskilyrði fyrir þá sem starfa í þessari grein.

Varðandi íbúðamarkaðinn sem við hljótum að ræða um er það staðreynd, og maður sér það á línuriti á síðu 9, að lánveitingar minnkuðu mjög mikið á árunum 2009, 2010 og 2011, það byrjaði 2008, og þetta á við um bankana líka. Það er mjög lítið af íbúðum í byggingu. Fólkinu fjölgar, árgangarnir eldast og þeir árgangar sem hefðu átt að kaupa íbúð 2008, 2009, 2009 og 2011 hafa ekki gert það. Þeir fjórir árgangar sem ekki hafa keypt íbúð eins og áður tíðkaðist hafa farið á leigumarkað en þar er sama sagan, það vantar nýbyggingar. Auðvitað kemur að því að við rekumst á vegg og ég held að við séum þegar komin að þeim vegg að það vanti hreinlega húsnæði fyrir ungt fólk. Margir búa í auknum mæli heima á hótel mömmu eins og kallað er, en engu að síður mun vanta íbúðarhúsnæði. Það getur orðið mjög dýrkeypt og valdið mikilli félagslegri spennu eftir eitt eða tvö ár þegar leigan hækkar mjög mikið vegna skorts á húsnæði og húsnæði hækkar líka. Það er reyndar að hækka vegna þess að sparifjáreigendur eiga engra kosta völ, vextir á sparifé eru neikvæðir, skattlagningin óhófleg á neikvæðar tekjur og fólk flýr eitthvert, þar á meðal inn í steinsteypu. Það leysir náttúrlega enga þörf, það breytir bara því að íbúð fer úr eignaríbúð yfir í leiguíbúð og eftir sem áður vantar nýjar íbúðir fyrir nýja árganga. Það eru 4.000 manns í árgangi og ef tveir eru í heimili eins og oft vill verða þarf um það bil 2.000 íbúðir fyrir ungt fólk. Síðan falla einhverjir frá og það eru nú yfirleitt lélegar íbúðir sem það fólk skilur eftir sig. Það má því segja að byggja þurfi 1.000–1.500 íbúðir á ári en það hefur ekki verið gert núna í þrjú, fjögur ár. Þær íbúðir vantar og menn munu lenda á vegg, bæði þeir sem eru á leigumarkaði og eins hinir sem eru að kaupa, þannig að íbúðaverð mun hækka og leigan sömuleiðis. Það er ekki seinna vænna að bregðast við því að Íbúðalánasjóður mæti þessum vanda.